„Draumur að rætast“

Zaneta Wyne í leik Þórs/KA og Hauka á Akureyri fyrr …
Zaneta Wyne í leik Þórs/KA og Hauka á Akureyri fyrr í sumar. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Zaneta Wyne, leikmaður fótboltaliðs Þórs/KA, segist hlakka mikið til að leika með Sunderland í ensku úrvalsdeildinni í vetur. Hún spilar ekki meira en Akureyrarliðinu, eins og fram kom á mbl.is í hádeginu heldur fer utan í dag til liðs við sína nýju samherja. Þór/KA á tvo leiki eftir á Íslandsmótinu.

„Ég er mjög spennt. Þetta koma bara upp í þessari viku og hlutirnir gerðust því mjög hratt,“ sagði Wyne í samtali við mbl.is. Vert er að geta þess að félagskiptaglugga ensku kvennadeildarinnar var lokað í gær.

Wyne frá Þór/KA til Sunderland.

„Það er gamall draumur minn að komast að í stórri deild og því er óhætt að segja að draumur sé að rætast. Það er þó vissulega mjög súrsætt að yfirgefa Þór/KA þegar tveir leikir eru eftir, við höfum öll lagt mjög mikla vinnu í keppnistímabilið og erum að nálgast endalínuna en ég gat samt ekki sleppt þessu tækifæri. Ég fórna einum draumi fyrir annan, sem ég vona að verði stærri - en það er samt mjög erfitt.“

Zaneta Wyne segist sannfærð um að liðsfélagar hennar í Þór/KA endi keppnistímabilið af krafti og tryggi sér Íslandsmeistaratitilinn. Akureyrarliðið þarf tvö stig úr síðustu tveimur  leikjunum til að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn í annað sinn; liðið mætir Grindavík á útivelli næst og síðasta leikurinn verður heima gegn FH. „Ég veit að stelpurnar vinna báða þessi leiki og ég mun fagna, þó í fjarlægð verði,“ segir Wyne.

Hún segir Sunderland hafa endað um miðja deild á Englandi í fyrra. „Ég veit að félagið hefur ekki sömu fjárráð og til dæmis Manchester City og Arsenal en held að þjálfarinn sé snjall og mér finnst það mjög ánægjulegt að hún trúi á mig; líti á mig sem leikmann sem búi yfir nægilega miklum gæðum til að ég geti nýst henni í ensku úrvalsdeildinni. Ég er því mjög bjartsýn á framhaldið og held að liðið geti gert góða hluti.“

Zaneta er frönsk-bandarísk og franskur ríkisborgari. Hún dregur ekki dul á það markmið sitt að komast í franska landsliðshópinn. „Það er annar draumur mitt og ég er ákveðin í að gera mitt besta til að hann rætist.“

Hún segist kveðja Akureyri með söknuði. „Mér þykir afar vænt um bæinn því hér hefur mér liðið mjög vel. Stelpurnar eru frábærar eins og aðrir sem tengjast liðinu, hér er afslappað andrúmsloft og fólkið yndislegt. Ég hef sannarlega notið tímans hér,“ sagði Zaneta Wyne.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert