Wyne frá Þór/KA til Sunderland

Zaneta Wyne er á leið frá Þór/KA til Sunderland á …
Zaneta Wyne er á leið frá Þór/KA til Sunderland á Englandi. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Zaneta Wyne, leikmaður knattspyrnuliðs Þórs/KA, leikur ekki meira með liðinu í sumar. Hún hefur gengið til liðs við enska úrvalsdeildarliðið Sunderland og heldur utan í dag. Wyne missir því af síðustu tveimur leikjum Akureyringa á Íslandsmótinu, gegn Grindavík á útivelli og heimaleiknum gegn FH. Akureyrarliðið þarf tvö stig úr síðustu tveimur leikjunum til að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn.

„Zaneta fékk tækifæri sem ekki býðst öllum, Sunderland vildi fá hana strax því deildin er að byrja og við ákváðum, af því að lið okkar er vel mannað, að standa ekki í vegi fyrir því að hún kæmist út. Við treystum okkar stelpum fyllilega til að ljúka Íslandsmótinu án hennar,“ sagði Halldór Jón Sigurðsson, Donni, þjálfari Þórs/KA við mbl.is.

Wyne, sem er 27 ára, lék fyrst hér á landi með Víkingi Ólafsvík 2014, fór þaðan til Kýpur en kom til Akureyrarliðins fyrir síðasta keppnistímabil og hefur verið lykilmaður þar á bæ síðan. Wyne, sem er frönsk-bandarísk, hefur ýmist leikið á miðjunni eða í vörn meistarakandídatanna. Hún hefur tekið þátt í 15 leikjum af 16 í Pepsídeildinni í sumar, misst af einum vegna meiðsla.

Enska úrvalsdeildin hefur verið leikin að sumarlagi, frá mars fram í október, frá stofnun árið 2011 en héðan í frá verður um að ræða vetrardeild. Keppni hefst brátt og lýkur í maí.

Fyrsti leikur Sunderland í ensku úrvalsdeildinni verður á útivelli gegn Reading 24. september en fyrsti heimaleikurinn verður gegn Chelsea laugardaginn 30. september.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert