Enn einn áfangi Gunnleifs

Gunnleifur Gunnleifsson.
Gunnleifur Gunnleifsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Gunnleifur Gunnleifsson, fyrirliði og markvörður Breiðabliks, náði enn einum áfanganum á löngum ferli í fótboltanum í dag þegar hann varði mark liðsins í leiknum gegn ÍBV í 21. og næstsíðustu umferð Pepsi-deildar karla.

Blikar unnu þar 3:2 sigur og gulltryggðu sér áframhaldandi sæti í deildinni en hinn 42 ára gamli Gunnleifur hefur þegar samið við Kópavogsfélagið um að leika áfram með því á næsta tímabili.

Leikurinn í dag var 400. deildaleikur Gunnleifs á ferlinum, innanlands og erlendis. Hann hefur leikið 395 leiki í íslensku deildakeppninni og er þar þriðji leikjahæstur frá upphafi, og að auki spilaði hann fimm leiki með Vaduz frá Liechtenstein í svissnesku úrvalsdeildinni árið 2009 þegar hann var hálft tímabil í röðum félagsins.

Gunnleifur lék fyrst með meistaraflokki HK 19 ára gamall árið 1994 og spilaði samtals 158 deildaleiki fyrir félagið, þar af 39 í úrvalsdeildinni, en hann fór með HK úr 2. deild og í úrvalsdeildina á árunum 2002 til 2007. Hann lék með HK til 2009, en áður um tíma með KVA á Reyðarfirði og Eskifirði, með KR í tvö ár og Keflavík í tvö ár. Gunnleifur spilaði með FH 2010 til 2012 og varð Íslandsmeistari þar síðasta árið en hefur leikið með Breiðabliki frá þeim tíma. Alls á hann að baki 109 deildaleiki með Breiðabliki, 65 með FH, 36 með Keflavík, 11 með KR og 16 með KVA.

Gunnleifur er eins og áður sagði með 395 deildaleiki hér á landi en þeir einu sem eru með fleiri á þeim vettvangi eru Gunnar Ingi Valgeirsson (417) og Mark Duffield (400).

Þá er hann 22. íslenski knattspyrnumaðurinn sem nær að spila 400 deildaleiki á ferlinum. Kári Árnason náði þeim áfanga fyrr á þessu ári. Leikjahæstur allra er Arnór Guðjohnsen með 523 leiki en sonarsonur hans, Sveinn Aron Guðjohnsen, er einmitt samherji Gunnleifs hjá Breiðabliki og skoraði sigurmarkið gegn ÍBV í dag.

Gunnleifur er orðinn 10. leikjahæsti leikmaður Breiðabliks í efstu deild frá upphafi, jafn Einari Þórhallssyni með 109 leiki, og þá er hann sá leikmaður sem í dag hefur leikið lengst í deildinni án þess að missa úr leik, eða 110 leiki í röð, en hann sat síðast hjá í leik hjá FH haustið 2012.

Markvörðurinn reyndi er enn fremur orðinn sjötti leikjahæsti leikmaðurinn í sögu efstu deildar karla hér á landi með samtals 260 leiki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert