Hann verðskuldaði þetta sigurmark

Hrvoje Tokic jafnar fyrir Blika úr vítaspyrnu í dag.
Hrvoje Tokic jafnar fyrir Blika úr vítaspyrnu í dag. mbl.is/Golli

Gunnleifur Gunnleifsson fyrirliði og markvörður Breiðabliks sagði eftir sigurinn á ÍBV að Sveinn Aron Guðjohnsen hefði svo sannarlega verðskuldað að skora sigurmarkið sem kom Blikum endanlega í örugga höfn í Pepsi-deild karla í knattspyrnu.

Blikar unnu 3:2 á Kópavogsvellinum í dag og eru þar með hólpnir á meðan Eyjamenn þurfa að slást um áframhaldandi sæti í deildinni í lokaumferðinni næsta laugardag.

Sveinn tryggði Blikum sætið.

„Það voru svo margir möguleikar í stöðunni fyrir leikinn en þegar allt kom til alls snerist þetta um okkur og hvort við myndum vinna eða ekki. Þá myndi annað ekki skipta máli. Við vorum með örlögin í okkar höndum og ég get ekki lýst því hve feginn ég var þegar við skoruðum þriðja markið," sagði Gunnleifur við mbl.is. 

Sveinn Aron kom inná sem varamaður og gerði úrslitamarkið í uppbótartíma eftir aukaspyrnu Kristins Jónssonar, sem einnig kom af varamannabekknum í dag.

„Þetta hefur verið í takt við það sem okkur hefur fundist í sumar. Hlutirnir hafa einhvern veginn ekki fallið með okkur. Svenni er búinn að vera mjög duglegur síðan hann kom til okkar í glugganum, hann hefur unnið vel og átti skilið að skora svona mikilvægt mark fyrir okkur. Sama með Kristin Jónsson sem gaf þessa frábæru sendingu á hann. Þrátt fyrir alla erfiðleikana í sumar er búinn að vera ótrúlega góður andi í liðinu, mikil samkennd og samheldni - og við áttum það bara skilið að klára þetta svona. Ég gæti ekki verið glaðari.

Það hefði verið vont að þurfa að fara í Kaplakrika í síðustu umferðinni undir mikilli pressu og ná í stig þar, eitt eða fleiri, á móti FH. Slíkt vill enginn, það er eins gott að vera laus við það og þá getum við bara einbeitt okkur við að vinna þá pressulausir," sagði Gunnleifur.

Gunnleifur Gunnleifsson.
Gunnleifur Gunnleifsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Blikar lentu tvisvar undir í leiknum og Gunnleifur viðurkenndi að það hefði verið mikið stress í liðinu.

„Já, það var stress í þessu öllu og í undirbúningnum fyrir leikinn. Öll vonbrigðin sem hafa verið í kringum liðið í sumar þýddu að það var stress fyrir leikinn og í leiknum, eins og sást á spilamennskunni. Hjá báðum liðum því ÍBV var ekki heldur í góðum málum. Þetta var því ekki eðlileg frammistaða hjá liðunum í dag, miðað við oft áður, en það voru þó skoruð fimm mörk og ég held að hann hafi verið ágæt skemmtun, þannig lagað, og stuðningsmenn okkar geta farið glaðir heim," sagði Gunnleifur sem vill njóta þess að spila síðasta leikinn á tímabilinu.

„Við viljum klára þetta með sigri, svo tökum við okkur gott frí. Þetta er búið að vera erfitt tímabil. En við verðum að horfa á hlutina þannig að þó maður sé að kvarta yfir erfiðleikum og slæmu gengi, þá er fótboltinn það sem við elskum, og njótum þess að spila. Það þurfum við að gera í síðasta leiknum líka," sagði hinn 42 ára gamli Gunnleifur sem hefur samið við Blika um að spila eitt tímabil í viðbót í marki liðsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka