„Elska þessa íþrótt“

Gunnleifur Gunnleifsson.
Gunnleifur Gunnleifsson. mbl.is/Golli

„Það er alltaf gott að enda tímabilið með sigri og ekki verra að gera það á móti FH í Kaplakrika sem er búið að vera yfirburðalið í íslenskum fótbolta sem lengi sem elstu menn muna,“ sagði Gunnleifur Gunnleifsson við mbl.is eftir 1:0 sigur Breiðabliks gegn FH-ingum í Kaplakrika í lokaumferð Pepsi-deildarinnar.

Þessi 42 ára gamli markvörður og fyrirliði Breiðabliks, sem lék í nokkur ár með FH-ingum, áður en hann kom til Blikanna stóð vaktina vel á milli stanganna í dag.

„Það er öllum ljóst að tímabilið var okkur vonbrigði. Við ætluðum okkur miklu meira en raun bar vitni. Mér fannst við spila virkilega vel. Liðið var agað og gott skipulag á því,“ sagði Gunnleifur en Breiðablik endaði í 6. sæti deildarinnar.

Gunnleifur er ekkert á þeim buxunum að leggja hanskana á hilluna.

„Ég er búinn að framlengja samning minn. Mér líður vel og ég elska þessa íþrótt svo á meðan skrokkurinn er heill og maður getur gert eitthvað gagn þá held ég áfram,“ sagði Gunnleifur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert