Rúnar Kristinsson var nú rétt í þessu kynntur sem nýr þjálfari karlaliðs KR í knattspyrnu, en hann tekur við liðinu af Willum Þór Þórssyni sem lét af störfum eftir síðasta leik í deildinni um liðna helgi. Rúnar skrifaði undir þriggja ára samning við KR.
Rúnar var ráðinn yfirmaður knattspyrnumála hjá KR árið 2007 og tók við þjálfun meistaraflokks á miðju sumri 2010. Framhaldið var afar farsæll kafli í sögu KR, Íslandsmeistaratitlar árin 2011 og 2013 og bikarmeistaratitlar árin 2011, 2012 og 2014.
KR lék 197 leiki undir stjórn Rúnars, sigraði í 127 þeirra, gerði 26 jafntefli en tapaði 44. Markatalan var 432:244 KR í hag.
Eftir að Rúnar lét af störfum eftir tímabilið 2014 og tók þá við Lilleström í Noregi. Hann var síðast á mála hjá Lokeren í Belgíu þaðan sem hann var rekinn í ágúst.
Viðtal við Rúnar birtist hér á mbl.is innan skamms.