Þegar dregið var í riðla fyrir undankeppni HM í knattspyrnu leit ekki út fyrir að Ísland myndi leika síðasta leikinn í riðlinum gegn Kósóvó. Upphaflega voru eingöngu fimm lið í riðlinum og samkvæmt þeim áætlunum hefði undankeppni Íslands lokið með leik í Tyrklandi.
Kósóvó var á síðasta ári samþykkt sem 210. aðildarsamband Alþjóðaknattspyrnusambandsins, FIFA, og var bætt í I-riðil undankeppninnar, riðil Íslands, í júní, tveimur mánuðum áður en undankeppnin hófst.
Sex lið voru í öllum riðlum nema tveimur, I og H-riðli, en auk Kósóvó var Gíbraltar bætt við undankeppnina. Bosnía og Serbía eru meðal liða í H-riðlinum en það var metið svo að ekki væri stætt á því að Kósóvó myndi mæta Serbum í undankeppninni. Þess vegna lenti liðið með Íslandi í riðli.
Snemma á árinu hafnaði Alþjóðaíþróttadómstóllinn kröfu Serbíu um að Kósóvó yrði neitað um aðild að Evrópska knattspyrnusambandinu, UEFA. Sambandið samþykkti Kósóvó í júní í fyrra en Serbía fór fram á að aðild Kósóvó yrði afturkölluð.
Kósóvó lýsti yfir sjálfstæði frá Serbíu hinn 17. febrúar 2008, en það var mjög í óþökk Serba sem líta á Kósóvó sem hluta af sjálfstjórnarhéraði innan Serbíu.
Fyrir fyrsta leik Kósóvó í undankeppninni, gegn Finnlandi fyrir rúmu ári, var óvíst með þátttöku sex leikmanna liðsins fram á leikdag. Ástæðan var sú að leikmennirnir höfðu leikið landsleik með öðrum þjóðum og Alþjóðaknattspyrnusambandið þurfti að úrskurða um hvort þeir mættu leika með Kósóvó.
Allir fengu þeir leikheimild á síðustu stundu en FIFA hefur gefið út þá meginreglu að öllum ríkisborgurum Kósóvó sé heimilt að sækja um leikheimild með liðinu að undanskildum þeim sem léku með öðrum þjóðum í Evrópumótinu sem fram fór í Frakklandi árið 2016.
Nú rúmlega ári síðar lýkur fyrstu undankeppni Kósóvó á Laugardalsvelli í kvöld en flautað verður til leiks klukkan 18.45.