Ísland komið á HM

Glæsilegur kafli var skrifaður í íslenska knattspyrnusögu í kvöld en með sigri gegn Kosóvó í lokaumferð riðlakeppni HM tryggðu Íslendingar sér sæti í lokakeppni HM í fyrsta sinn í sögunni en heimsmeistaramótið fer fram í Rússlandi næsta sumar.

Það tók Íslendinga 40 mínútur að brjóta á bak aftur lið Kosóva en þá skoraði Gylfi Þór Sigurðsson sitt 18. landsliðsmark. Fram að því hafði leikurinn verið í járnum þó svo að íslenska liðið hafi verið meira með boltann. Gylfi fékk boltann frá varnarmanni Kosóvó rétt við vítateigslínu. Hann lék á varnarmann og skoraði með föstu skoti.

Jóhann Berg innsiglaði svo sigur Íslands og farseðilinn á HM þegar hann skoraði af stuttu færi eftir fasta fyrirgjöf frá Gylfa Þór Sigurðssyni. Eftir það lék íslenska liðið af festu og sigldi sigrinum heim í hús á öruggan hátt.

Íslendingar enduðu þar með riðlakeppnina með glæsibrag. Eftir vont tap á útivelli gegn Finnum unnu Íslendingar þrjá síðustu leiki sína, samanlagt 7:0, og enduðu með 22 stig í efsta sæti en Króatar fengu 20 og fara í umspil.

Það skýrist svo 1. desember hverjir verða andstæðingar Íslendinga á HM í Rússlandi en þá verður dregið í riðla. 32 lið taka þátt í HM og verður þeim raðað í átta fjögurra liða riðla. 

Líklega verða Íslendingar í þriðja styrkleikaflokki en það skýrist þegar styrkleikalisti HM verður gefinn út eftir viku.

Ísland 2:0 Kósóvó opna loka
90. mín. Jóhann Berg Guðmundsson (Ísland) á skot sem er varið Góður sprettur og gott skot.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert