Sigri Íslands í I-riðli í undankeppni heimsmeistaramótsins í knattspyrnu var slegið upp í erlendum fjölmiðlum í kvöld. „Eftir hressandi frammistöðu Íslendinga á EM í Frakklandi 2016 getur knattspyrnuheimurinn farið að láta sig hlakka til að fylgjast með Víkingunum á HM í Rússlandi,“ sagði í frétt þýska knattspyrnublaðsins Kicker. „Litla eyríkið í Atlantshafi tryggði sér fyrsta sinni rétt til þátttöku í lokakeppni þjóða heimsins með 2:0 sigri gegn neðsta liðinu, Kosovo, og náði þar með efsta sæti riðilsins.“
Á vefsíðu danska blaðsins Politiken er stór frétt um að Ísland hafi tryggt sér farmiðann til Rússlands og sett met í leiðinni. „Þegar Ísland og Wales tryggðu sér þátttöku utangarðsþjóðanna tveggja fyrsta sinni í lokakeppni EM glottu gagnrýnendur þess að þátttakendum hafði verið fjölgað í 24 lið,“ sagði í blaðinu. „Það væri orðið of létt að komast í lokakeppnina og Evrópumeistaramótið væri á góðri leið með að verða gengisfellt, sögðu menn. Gagnrýnendurnir áttu eftir að éta orð sín ofan í sig ári síðar því að Ísland og sérstaklega Wales stóðu sig vel á lokamótinu í Frakklandi.“ Síðan segir að þótt Wales hafi náð lengra í Frakklandi hafi íslenska liðið og stuðningsmenn þess „sigrað hjörtu Evrópu. Og nú getur restin af heiminum búið sig undir að kynnast íslenska knattspyrnulandsliðinu.“
„Hú! Ísland í fyrsta skipti á leið á HM í fótbolta,“ sagði í fyrirsögn á vefsíðu þýska blaðsins Die Welt. Frétt blaðsins hefst á orðunum: „Lítil knattspyrnuþjóð mjög stór.“ Í fréttinni er árangur liðsins í Frakklandi rakinn og síðan segir: „Þúsundir stuðningsmanna sköpuðu mörg gæsahúðaraugnablik með hú-hrópum og fagnaðarlátum á knattspyrnuvöllum Frakklands - það gæti nú endurtekið sig í Rússlandi 2018.“
Í fyrirsögn þýska blaðsins Bild segir að Íslendingar hafi skrifað sig í sögubækur heimsmeistarakeppninnar og vísar til þess að í fyrsta skipti hafi land með færri en milljón íbúa tryggt sér þátttökurétt í lokakeppni hennar. „Þetta lið er einfaldlega gríðarsterkt,“ sagði í frétt blaðsins og fylgdi upphrópunarmerki. Eftir að hafa komist á EM í fyrra vinni liðið nú næsta stórvirki og tryggi sér farseðilinn á HM í Rússlandi.
„Ísland á HM eftir öruggan sigur,“ sagði í fyrirsögn fréttar á vef Svenska Dagbladet. Hefst fréttin á því að Ísland hafi ekki látið staðar numið með árangrinum á EM í fyrra og nú hafi liðið komist í þá draumastöðu að vera á leið til Rússlands á næsta ári.
„Klárir fyrir HM,“ segir á forsíðu vefjar norska blaðsins Verdens Gang. Þar segir að eftir að íslenska landsliðið tryggði sér þátttökurétt í Rússlandi sé ekki annað að gera en að taka ofan og fyllast virðingu yfir þessum árangri. Vitnað er í Kjetil Rekdal, sérfræðing hjá Eurosport, sem segir galið að lítið land eins og Ísland fái að upplifa þetta. Í blaðinu er rætt við Lars Lagerbäck, sem áður þjálfaði íslenska landsliðið og nú þjálfar það norska, og segir hann að frammistaða liðsins nú sé sambærileg við frammistöðu þess þegar það tryggði sér þátttöku á EM í fyrra. Styrkleiki þess nú sé svipaður og undir sinni stjórn. Í VG segir að Ísland hafi fest sig í sessi í knattspyrnuheiminum með 0:3 sigrinum á Tyrklandi á föstudag. Þar segir einnig að útgerð íslenska liðsins kosti helmingi minna en þess norska, sem mun sitja heima þegar leikar hefjast í Rússlandi næsta sumar.