Einhver óvæntustu úrslit í sögu íslenskrar knattspyrnu litu dagsins ljós í Wiesbaden í Þýskalandi í dag þegar Ísland skellti ólympíumeisturum Þýskalands 3:2 í annarri umferð í undankeppni HM 2019 kvenna í knattspyrnu.
Mögnuð frammistaða íslensku landsliðskvennanna gegn áttföldum Evrópumeisturum og tvöföldum heimsmeisturum. Þýskaland hafði ekki tapað stigi hvað þá leik í undankeppni stórmóts síðan 2011 þegar liðið gerði jafntefli við Spán á útivelli.
Leikur Íslands var lagður snilldarlega upp með tilliti til leikstíls þýska liðsins. Gekk áætlunin fullkomlega upp og Ísland komst í 1:0 og síðan í 3:1.
Dagný Brynjarsdóttir skoraði tvívegis og lagði upp hið þriðja fyrir Elínu Mettu Jensen. Dagný skoraði strax á 15. mínútu eftir undirbúning Rakelar Hönnudóttur og Elínar. Alexandra Popp jafnaði fyrir Þýskaland á 42. mínútu og staðan var 1:1 í hálfleik.
Dagný lagði upp annað markið fyrir Elínu á 47. mínútu og þá komst Ísland aftur yfir 2:1. Dagný skoraði þriðja markið eftir stungusendingu Elínar á 58. mínútu og kom Íslandi í frábæra stöðu. Þann mun tókst Þjóðverjum ekki að brúa þótt lokamínútur leiksins tækju á taugarnar hjá Íslendingum. Lea Schüller minnkaði muninn í 3:2 á 88. mínútu en þrátt fyrir þunga sókn í lokin náði þýska liðið ekki að jafna.
Ísland vann 8:0-stórsigur gegn Færeyjum í fyrstu umferð undankeppninnar og Þýskaland hefur borið sigur úr býtum í fyrstu tveimur leikjum sínum.
Þýskaland vann öruggan 6:0-sigur gegn Slóveníu í fyrstu umferðinni og lagði Tékkland að velli með einu marki gegn engu í annarri umferðinni.
Ísland sækir næst Tékkland heim á þriðjudaginn og sá leikur er ekki síður mikilvægur upp á framvinduna í riðlinum. Þjóðverjar koma til Íslands í september á næsta ári.