Hallbera Guðný Gísladóttir, landsliðskona í knattspyrnu, hefur ákveðið að hætta hjá sænska úrvalsdeildarfélaginu Djurgården að þessu keppnistímabili loknu og flytja aftur heim til Íslands.
Hallbera fór frá Breiðabliki til Djurgården fyrir þetta tímabil og hefur verið í byrjunarliði í öllum 20 leikjum liðsins í deildinni.
„Ég lauk háskólanámi í viðskiptafræði samhliða boltanum síðasta vor og tel að þetta sé ágætis tímapunktur til að koma heim og byrja að vinna,“ sagði Hallbera við Morgunblaðið í gærkvöld.
Hallbera lék með ÍA til 2005, með Val 2006 til 2011 og var síðan í hálft þriðja ár erlendis með Piteå í Svíþjóð og Torres á Ítalíu. Hún lék aftur með Val 2014 en síðan tvö tímabil með Breiðabliki. Hún hefur enga ákvörðun tekið ennþá um með hverjum hún spilar á næsta ári.
„Ég á enn eftir tvo leiki á tímabilinu hérna í Svíþjóð og ætla að bíða með að ræða við félög þangað til ég kem heim í lok nóvember. Á meðan ég er í fótbolta á annað borð verð ég í honum af fullum krafti. Hvar sem ég kem til með að spila, mun það verða með því markmiði að halda sæti mínu í landsliðinu. Ég tel mig geta sinnt fótboltanum af fullum krafti samhliða vinnu,“ sagði Hallbera.
Hún hefur átt fast sæti í landsliðinu um árabil, spilaði alla 14 leiki liðsins í ár og er áttunda leikjahæsta landsliðskona Íslands frá upphafi með 90 landsleiki.