Geir svarar fyrir sig – „Ég held með fótboltanum“

Geir Þorsteinsson.
Geir Þorsteinsson. mbl.is/Árni Sæberg

„Það að Gylfi skyldi ekki vera valinn í ár voru persónuleg vonbrigði fyrir mig, en hver og einn hefur sína skoðun,“ sagði Geir Þorsteinsson, fyrrverandi formaður KSÍ, en hann hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir ummæli sem hann lét falla eftir kjör íþróttamanns ársins í gærkvöldi.

„Þetta gengur ekki lengur - þurfum að velja íþróttamann og íþróttakonu ársins - fá til verksins hundruði aðila sem til þekkja - knattspyrnumaður ekki valinn ÍMÁ 2017!!“ skrifaði Geir á Twitter-síðu sína.

Geir var í viðtali í útvarpsþættinum Akraborginni á X-inu í dag þar sem hann útskýrði nánar ummælin sem hann lét falla eftir að kylfingurinn Ólafía Þórunn Kristinsdóttir var kjörin íþróttamaður ársins.

„Ég vil óska henni til hamingju og öðrum sigurvegurum, það eru allir vel að því komnir sem fá slíkan heiður. En þetta snýst ekki um það heldur um að verðlauna fleiri. Þetta er ekki ný skoðun hjá mér, ég er búinn að halda því fram lengi að við þurfum að breyta þessu vali og aðferðum varðandi kjör á íþróttamanni ársins,“ sagði Geir í útvarpsþættinum í dag og sagðist hissa að Gylfi Þór Sigurðsson hefði ekki verið valinn.

Það væri betra og hvetjandi fyrir grasrótina í íþróttahreyfingunni að valin yrði ein kona og einn karl. Það held ég að væri miklu betri lausn og hef verið á þeirri skoðun í mörg ár. [...] Auðvitað átti ég von á því að Gylfi yrði valinn, ég viðurkenni það fúslega. Ég geri mér grein fyrir afrekum annarra íþróttamanna en náttúrlega held með fótboltanum og það vita allir,“ sagði Geir meðal annars.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert