Stjórn Knattspyrnusambands Íslands hefur tekið þá ákvörðun að jafna árangurstengdar greiðslur A-landsliða karla og kvenna fyrir árangur í undankeppnum stórmóta.
Guðni Bergsson, formaður KSÍ, tilkynnti þetta í upphafi fréttamannafundar í höfuðstöðvum sambandsins í dag.
„Þetta er skref sem við tókum einhuga í stjórninni og töldum vera framfaraspor. Við viljum vera framsækin og ákváðum því að stíga þetta skref. Það hefur verið umræða um þetta á Norðurlöndum og víðar og Noregur hefur stigið þetta skref,“ sagði Guðni.
„Við töldum þetta vera tímabært og yrði hvatning fyrir íslenska knattspyrnu og íslenskan kvennafótbolta,“ sagði Guðni og tók fram að um umtalsverða hækkun sé að ræða á greiðslum til leikmanna A-landsliðs kvenna.