„Enginn sem spilaði í dag fer á HM“

Íslenska liðið fagnar marki Jóns Guðna Fjólusonar.
Íslenska liðið fagnar marki Jóns Guðna Fjólusonar. AFP

Heimir Hallgrímsson, landsliðsþjálfari karlaliðsins í fótbolta, var svekktur eftir 3:1-tap gegn Perú í vináttulandsleik á Red Bull-vell­in­um í Harri­son í New Jers­ey í nótt. Íslenska liðið fékk á sig mark eftir aðeins þrjár mínútur en vann sig betur inn í leikinn eftir því sem leið á fyrri hálfleikinn. Jón Guðni Fjóluson jafnaði á 22. mínútu og var staðan 1:1 í hálfleik. Perú var hins vegar mikið mun betri aðilinn í síðari hálfleik.  

„Við erum svekktir með seinni hálfleikinn eftir að við komum okkur inn í fyrri hálfleikinn. Þetta byrjaði eins hræðilega og það gat gerst. Það er slæmt að fá á sig mark á móti svona liði og við ætluðum að vinna okkur hægt og rólega inn í leikinn, en við litum illa út fyrstu 15 mínúturnar og við náðum ekki að klukka þá," sagði Heimir í samtali við RÚV eftir leik. 

„Við unnum okkur smátt og smátt inn í leikinn og náðum að jafna og ég var þokkalega sáttur hvernig við spiluðum fyrri hálfleikinn. Við vissum að Perú er alltaf gott í seinni hálfleik. Þeir skora helmingi fleiri mörk í seinni hálfleik. Við fórum samt bjartir inn í seinni hálfleikinn en þeir voru einu númeri stærri en við í dag. Saga leiksins er að við náðum ekki að klukka þá."

„Við höfðum gott að því að spila við lið eins og Perú. Það er hrikalega gaman að horfa á leiki með þeim. Þeir eru hraðir, teknískir en samt rosalega skipulagðir, viljugir og duglegir. Við fengum smjörþefinn af því hvernig er að spila við virkilega gott suður-amerískt lið. Þetta svarar ýmsu fyrir okkur."

Er Heimir búinn að ákveða hópinn sem fer til Rússlands? 

„Enginn sem spilaði í dag fer á HM," sagði hann léttur og hélt svo áfram. Við erum með einhverja í huga. Þessi leikur var góður á einhvern hátt og mikill lærdómur. Það er erfitt að spila á svona velli. Það var einn íslenskur fáni og svakaleg stemning," sagði Heimir í samtali við RÚV. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert