„Miðað við hvernig við spiluðum í dag og vorum betri aðilinn í leiknum, þá er svekkjandi að við fáum dæmd á okkur tvö mörk sem eru mjög vafasöm. Annað var vítaspyrna sem var bara dýfa. Síðan var hendi í öðru markinu. Það er dýrt að fá svona mörk á sig þegar við skilum annars góðu dagsverki,“ sagði Rúnar Páll Sigmundsson þjálfari Stjörnunnar eftir 2:2 jafntefli við Val á Origo-vellinum í kvöld.
„Við vorum rændir sigri, það er bara þannig. En dómarar gera mistök eins og við leikmennirnir og hann er búinn að viðurkenna það fyrir mér. En það er sárt.“
Stjarnan gerði breytingu á leikkerfi sínu fyrir leik kvöldsins.
„Við fórum í fjögurra manna vörn, 4-2-3-1 og þéttum aðeins miðjuna. Það gekk feikivel og ég er mjög ánægður með spilamennskuna. Við náðum ekki að æfa leikkerfið sérstaklega vel í vikunni út af óveðrinu í gær. En strákarnir skiluðu frábæru starfi í dag.“
„Við breyttum kerfinu eftir að við ræddum þetta og komumst að niðurstöðu sameiginlega þjálfarar og leikmenn. Við vorum miklu þéttari á miðsvæðinu og nálægt mönnunum okkar. Vonandi er þetta það sem koma skal,“ sagði Rúnar Páll að lokum.