Gylfi Þór Sigurðsson sagði íslensku landsliðsmennina hafa skort þolinmæði í síðari hálfleik í leiknum gegn Nígeríu á HM í dag.
„Við erum auðvitað gríðarlega svekktir, sérstaklega eftir því hvernig fyrri hálfleikurinn spilaðist. Við vorum mjög fínir þar en vorum ólíkir okkur í seinni hálfleik. Þá vorum við svolítið óþolinmóðir. Vorum að reyna að vinna leikinn í stað þess að vera þéttir til baka og ég man ekki hversu margar skyndisóknir þeir áttu í seinni hálfleik.“
Vissu þið ekki að það kæmi áhlaup frá þeim í seinni hálfleik?
„Jú jú við vissum auðvitað að þeir hefðu engu að tapa og myndu selja sig dýrt í seinni hálfleik. Við töluðum um það. En strax eftir miðjuna fóru þeir í skyndisókn og skoruðu næstum því. Einhvern veginn var þetta þannig allan seinni hálfleikinn,“ sagði Gylfi ennfremur að leiknum loknum og spurður út í vítið sagðist hann hafa haldið sig við sína venjulegu rútínu.
„Auðvitað hugsaði ég bara um að skora. Það er leiðinlegt þegar þetta fer svona en maður verður bara að halda áfram. Þetta var bara sama rútína og ég hef alltaf notað.“