Stoltur af liðinu og þjóðinni

Freyr Alexandersson var svekktur í leikslok á Laugardalsvelli í dag.
Freyr Alexandersson var svekktur í leikslok á Laugardalsvelli í dag. mbl.is/Eggert

„Ég er svekktur því okkur langaði svo mikið að vinna þær aftur en á sama tíma er ég líka mjög stoltur af bæði liðinu og þjóðinni,“ sagði Freyr Alexandersson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, í samtali við mbl.is eftir 2:0-tap liðsins gegn Þýskalandi í 5. riðli undankeppni HM á Laugardalsvelli í dag.

„Þetta er tilfinningaþrungið fyrir mig persónulega, sérstaklega í þjóðsöngnum. Í heild er ég sáttur með frammistöðu liðsins í leiknum. Við vörðumst mjög vel og hann var að flestu leyti mjög vel framkvæmdur. Sóknarlega var þetta erfitt og við töpuðum fyrir betra liði í dag, svo einfalt er það. Líkt og við gerðum í Wiesbaden þá þurftum við að reyna treysta á að þær myndu gera ákveðin mistök og mér fannst við gera of lítið af því að reyna að þvinga þær í erfiða hluti. Ég verð samt að hrósa þýska liðinu fyrir frammistöðu þess. Þær mættu mjög einbeittar til leiks og gerðu nánast engin mistök í leiknum.“

Íslenska liðið sýndi ágætis takta á köflum en þegar upp var staðið var þýska liðið einfaldlega of stór biti í dag.

Þjóðverjar fagna fyrsta marki sínu gegn Íslandi í dag.
Þjóðverjar fagna fyrsta marki sínu gegn Íslandi í dag. mbl.is/Eggert

Þjóðverjar eru með heimsklassa lið

„Kantspilið hjá Þjóðverjunum var frábært í dag. Við vorum búnar að undirbúa okkur mjög vel fyrir þríhyrningsspilið þeirra og mér fannst við standa það vel af okkur en þrátt fyrir það tókst þeim nokkrum sinnum að spila sig í gegnum okkur. Það sýnir einfaldlega gæðin í þessu þýska liði og það er hellingur sem við getum lært af þeim. Þær sýndu það og sönnuðu í dag að þær eru heimsklassalið sem hreyfir sig frábærlega, með og án boltans. Þær hittu á frábæran dag hjá sér en það er samt sem áður engin tilviljun. Þær voru búnar að undirbúa sig vel fyrir leikinn og báru virðingu fyrir okkur.“

Freyr var að vissu leyti ósáttur við ákveðna hluti í sóknarleik íslenska liðsins og ítrekar að liðið eigi að geta gert betur á ákveðnum sviðum.

Berglind Björg Þorvaldsóttir fékk úr litlu að moða í leiknum …
Berglind Björg Þorvaldsóttir fékk úr litlu að moða í leiknum í dag og komst ekki í takt við leikinn. mbl.is/Eggert

Hefðum getað gert betur

„Það sem ég er kannski einna ósáttastur við er að tímasetningarnar á sendingunum okkar, þegar við reyndum að fara á bak við þær, voru ekki nægilega góðar. Við erum góðar í að senda og hlaupa í svæðin á bak við varnarmennina og mér fannst það ekki takast nægilega vel hjá okkur í dag. Ég vil krefja leikmennina um það sem ég veit að þær eru góðar í og við hefðum getað gert betur þar.“

Nú tekur við undirbúningur fyrir leik gegn Tékkum sem fer fram 4. september á Laugardalsvelli en stelpurnar verða að vinna þann leik, til þess að eiga sem besta möguleika á því að komast í umspil fyrir HM í Frakklandi 2019.

„Upphaflega var markmið númer eitt að komast á HM og við reyndum að fara bónusleiðina en betra liðið fór þá leið í dag og það er í góðu lagi. Núna tekur bara næsti leikur við gegn Tékkum og við ætlum okkur sigur og í umspil um laust sæti á HM. Það verða þjóðir þarna í umspilinu sem eru mjög sterkar en það er mitt mat að við eigum að geta unnið þær.“

Freyr býst við erfiðum leik gegn Tékkum og allt öðruvísi leik en gegn Þjóðverjum í dag.

Það er allt undir í lokaleiks liðsins gegn Tékkum á …
Það er allt undir í lokaleiks liðsins gegn Tékkum á þriðjudaginn. mbl.is/Eggert

Eðlilegt að tapa fyrir Þýskalandi

„Núna þurfum við að hrista þetta tap af okkur og byrja að undirbúa okkur fyrir leikinn gegn Tékkunum. Við munum fara vel yfir lið þeirra á fundi á morgun og svo hefst bara undirbúningur fyrir þann leik sem verður erfiður og allt öðruvísi en leikurinn gegn Þjóðverjum. Við þurfum að passa okkur á að vonbrigðin sitji ekki of lengi í okkur en ég sagði það fyrir leikinn í dag að það væri eðlilegt að við töpuðum fyrir Þýskalandi en samt sem áður trúum við svo mikið á okkur sjálf að það eru einhvern veginn alltaf vonbrigði þegar við töpum, sama á móti hverjum við erum að spila,“ sagði Freyr ennfremur í samtali við mbl.is á Laugardalsvelli í dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert