Það hefur ekki farið framhjá þýskum fjölmiðlum frekar en íslenskum að Ísland og Þýskaland mætast í risaleik í undankeppni heimsmeistaramóts kvenna í knattspyrnu á Laugardalsvellinum í dag.
Í fyrsta sinn í sögunni er uppselt á leik kvennalandsliðsins en 9.800 áhorfendur sjá þennan úrslitaleik um sigur í riðlinum og þar með sæti á HM 2019. Þýskir íþróttamiðlar eru býsna brattir þrátt fyrir tap gegn Íslandi í fyrri leik liðanna en þeir eru óvanir því að tapa tvisvar í röð gegn sama andstæðingi.
„Leikur ársins fer fram í Reykjavík og þar ræðst hvort okkar tvöföldu heimsmeistarar þurfi að fara í umspil í fyrsta sinn,“ segir Frank Hellmann hjá ZDF Sport. „Eftir vandræðalegt tap heima í október síðastliðnum verðum við að vinna fyrir framan troðfullan þjóðarleikvang eyjunnar á Norður-Atlantshafinu.“
Þá segir í umfjöllun Sportschau.de að takist þýskum ekki að komast á HM hafi kvennalandsliðið fallið enn hraðar og í meiri ónáð en karlarnir gerðu eftir afleitt gengi sem ríkjandi heimsmeistarar í Rússlandi í sumar. „Frá Ólympíumeisturum í Ríó [2016] í að vera áhorfendur þegar heimsmeistaramótið fer af stað? Kvennalandsliðið gæti hrapað af stalli hraðar en karlaliðið,“ sagði blaðamaðurinn Nick von Przewoski en ljóst er að mikil pressa er á gestunum í dag.