Ísland í 2. sæti en ekki í umspil

Ísland og Tékkland gerðu 1:1-jafntefli í lokaumferð 5. riðils undankeppi heimsmeistaramóts kvenna í knattspyrnu á Laugardalsvellinum.

Úrslitin þýða að Ísland endar í 2. sæti riðilsins, þremur stigum fyrir ofan Tékkland en tveimur fyrir neðan Þýskaland sem vann Færeyjar 8:0.

Liðin með bestan árangur í 2. sæti í fjórum af sjö undanriðlum Evrópu fara í umspil um eitt laust sæti á HM. Ísland náði ekki í þann hóp en litlu mátti muna. Hefði Belgía ekki náð að vinna Ítalíu, 2:1, hefði Ísland komist í umspilið.

Íslenska liðið fékk aragrúa marktækifæra í fyrri hálfleik en var 1:0 undir að honum loknum, eftir gott skallamark Terezu Szewieczková á 12. mínútu. Ísland byrjaði seinni hálfleik ágætlega en svo var eins og liðið missti dampinn og Tékkar fengu að ráða ferðinni í nokkurn tíma. Þegar líða fór að leikslokum bætti Ísland í sóknina og uppskar að lokum mark þegar Glódís Perla Viggósdóttir jafnaði metin í kjölfarið á löngu innkasti Sifjar Atladóttur.

Ísland fékk kjörið tækifæri til að koma sér í umspilið þegar Elín Metta Jensen, sem var mjög frísk í leiknum og dugleg við að koma sér í færi en nýtti þau illa, fiskaði vítaspyrnu. Fyrirliðinn Sara Björk Gunnarsdóttir tók spyrnuna en Barbora Votiková varði í horn.

Enn var tími fyrir dauðafæri þegar varamaðurinn Berglind Björg Þorvaldsdóttir skallaði framhjá eftir fyrirgjöf Fanndísar Friðriksdóttur, en allt kom fyrir ekki. Slakur makedónískur dómari leiksins, Ivana Projkovska, flautaði leikinn af og íslensku stelpurnar lögðust niðurbrotnar í grasið. HM-draumurinn sem var svo raunhæfur fyrir nokkrum dögum er úr sögunni.

Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu hér á mbl.is. Viðtöl koma inn von bráðar.

Ísland 1:1 Tékkland opna loka
90. mín. Ísland fær hornspyrnu Næstum því sjálfsmark, skalli eftir aukaspyrnu. Ísland fær horn.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert