Ísland vann öruggan 5:2-sigur á Eistlandi á Kópavogsvelli í dag, í undankeppni Evrópumóts U21-landsliða karla í knattspyrnu. Ísland var 3:0 yfir í hálfleik.
Með sigrinum er Ísland komið upp fyrir Norður-Írland og í 3. sæti síns riðils með 11 stig eftir sjö leiki. Liðið er stigi á eftir Slóvakíu en Ísland og Slóvakía mætast einmitt á KR-velli næstkomandi þriðjudag kl. 15.30. Ísland mætir svo Norður-Írlandi og toppliði Spánar 10. og 15. október, þegar undankeppnin klárast.
Spánn er með 18 stig og mætir Albaníu nú í kvöld, og allt bendir til þess að Spánverjar endi í efsta sæti og fari beint á EM. Ísland á möguleika á að komast í umspil en þangað fara fjögur lið með bestan árangur í 2. sæti í undanriðlunum níu. Í þeim útreikningum er ekki horft til úrslita gegn neðsta liði hvers riðils, sem í riðli Íslands er allt útlit fyrir að verði Eistland.
Ísland lék frábærlega í fyrri hálfleik í Kópavoginum í dag. Óttar Magnús Karlsson kom liðinu í 2:0 með góðum mörkum á þriggja mínútna kafla, í bæði skiptin eftir ekki síðri undirbúning og fyrirgjafir Jóns Dags Þorsteinsonar sem lék á vinstri kantinum. Eistlendingar sköpuðu sér vart færi og íslenska liðið réð ferðinni algjörlega, og rétt fyrir leikhlé bætti Samúel Kári Friðjónsson við draumamarki. Samúel, sem stýrði ferðinni sem aftasti miðjumaður Íslands, fékk boltann við miðjuhringinn og HM-farinn lét svo vaða af rúmlega 35 metra færi svo boltinn söng efst í vinstra horninu.
Ísland komst í 4:0 snemma í seinni hálfleik með marki Arnórs Sigurðssonar eftir frábæra sókn. Þessi 19 ára gamli Skagamaður, sem nýverið var keyptur til CSKA Moskvu, komst afar vel frá sínu í sínum fyrsta mótsleik fyrir U21-landsliðið. Þeir Albert Guðmundsson léku fyrir framan Samúel Kára á miðjunni og voru síógnandi, en Albert var algjör lykilmaður í öllu uppspili íslenska liðsins. Hann gerðist reyndar sekur um mistök þegar dæmd var hendi og vítaspyrna á hann á 61. mínútu, sem Eistar skoruðu úr, en bætti fyrir það með afar fallegu marki þremur mínútum síðar; skoti utan teigs eftir stutta hornspyrnu frá Jóni Degi.
Þótt Eistlendingar hafi sáralítið skapað af færum í leiknum tókst þeim að minnka muninn í 5:2 með marki varamannsins Sörens Kaldma, eftir einbeitingarleysi í íslenska liðinu. Eistland hefur því skorað fjögur af þeim átta mörkum sem Ísland hefur fengið á sig í undankeppninni, en Ísland vann leik liðanna í Tallinn 3:2. Fyrir utan mörkin tvö var varnarleikur íslenska liðsins afar traustur, fyrir framan Fylkismanninn Aron Snæ Friðriksson sem fékk tækifæri í markinu en hafði lítið að gera.