Zidane-snúningur Sindra var skyndihugmynd

Sindri Snær Magnússon og Hilmar Árni Halldórsson horfa á boltann …
Sindri Snær Magnússon og Hilmar Árni Halldórsson horfa á boltann í viðureign Stjörnunnar og ÍBV. mbl.is/Valgarður Gíslason

 „Ég hef reynt þetta nokkrum sinnum á æfingum. Síðan gerðist þetta hratt í leiknum, ég fékk þá skyndihugmynd að snúa mér svona með boltann og skjóta. Þetta heppnaðist vel og það var gaman að sjá hann í netinu, enda þótt ég hefði hugsað fyrst og fremst um að sækja boltann þangað og reyna að skora aftur til að vinna leikinn,“ sagði Sindri Snær Magnússon, fyrirliði ÍBV, um jöfnunarmarkið sem hann gerði í 2:1 sigrinum gegn Stjörnunni í Pepsi-deild karla í knattspyrnu á Hásteinsvelli á sunnudaginn.

Hann tók þá svokallaðan „Zidane-snúning“ með boltann og skoraði með fallegu skoti frá vítateig. Þetta var vendipunktur fyrir bæði lið, Eyjamenn skoruðu sigurmark rétt á eftir og gerðu vonir Stjörnunnar um Íslandsmeistaratitil nánast að engu, auk þess að gulltryggja sjálfir sæti sitt í deildinni.

„Þetta var einn besti leikur okkar í sumar. Við vorum reyndar í vandræðum um tíma eftir að við lentum 0:1 undir en síðan tókum við völdin í leiknum á ný," sagði Sindri sem er sá leikmaður sem Morgunblaðið fjallar um eftir 21. umferð deildarinnar en hann fékk 2 M fyrir frammistöðu sína á sunnudaginn.

Reyndasti leikmaður ÍBV, Gunnar Heiðar Þorvaldsson, tilkynnti fyrir leik að þetta væri hans kveðjuleikur á heimavelli þar sem hann leggur skóna á hilluna í haust. Sindri sagði að það hefði vissulega haft tilfinningaleg áhrif á liðið og leikinn. „Gunnar lét okkur vita þetta í matnum um morguninn. Þetta hafði svo sem legið í loftinu en þarna var það staðfest og það var því sérstaklega gaman að geta endað á heimavellinum með sigri. Hann var sjálfur í miklu stuði og reyndi meira að segja tvisvar að skora með hjólhestaspyrnu. Það hefði verið flott ef það hefði heppnast!“

Tölvuvinna með fótboltanum

Sindri var nýkominn af hádegisæfingu með ÍBV þegar undirritaður spjallaði við hann í gær. „Við reynum að æfa sem mest í hádeginu á sumrin, menn komast frá vinnu rétt fyrir hádegið, æfa og mæta síðan aftur. Ég er forritari hjá Advania og er svo heppinn að fyrirtækið er með skrifstofu hérna í Eyjum þannig að ég vinn hérna frá apríl og fram á haust, þegar ég fer aftur í bæinn. Tölvuvinnan hentar líka vel með fótboltanum því hún þarf ekki endilega að vera frá níu til fimm. Ég get farið á æfingar og til sjúkraþjálfara og unnið í staðinn á kvöldin.“

Sjá allt viðtalið við Sindra Snæ og úrvalslið 21. umferðar í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag en þar er einnig staðan í M-gjöfinni.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert