Sísí snýr heim - „Hjartað slær í Eyjum“

Sigríður Lára Garðarsdóttir fagnar marki með ÍBV.
Sigríður Lára Garðarsdóttir fagnar marki með ÍBV. Ljósmynd/Sigfús

Sigríður Lára Garðarsdóttir, landsliðskona í knattspyrnu, hefur skrifað undir nýjan samning við ÍBV eftir að hafa síðustu mánuði verið hjá Lilleström og orðið Noregsmeistari með liðinu.

Þetta eru afar góðar fréttir fyrir ÍBV en Sísí, eins og hún er kölluð, hefur verið algjör lykilmaður í Eyjaliðinu síðustu ár. Þess má geta að ÍBV á enn eftir að tilkynna um ráðningu nýs þjálfara fyrir næsta tímabil en samkvæmt heimildum mbl.is mun Jón Ólafur Daníelsson taka við liðinu sem aðalþjálfari á nýjan leik.

Sigríður Lára gekk í raðir Lilleström frá ÍBV í ágúst síðastliðnum og gerði skammtímasamning við norska félagið. Henni stóð til boða að vera áfram hjá Lilleström, sem komið er í 8-liða úrslit Meistaradeildar Evrópu eftir að hafa slegið út Bröndby og leikur bikarúrslitaleikinn í Noregi 1. desember, en afþakkaði það.

„Ég er búin að skrifa undir samning við ÍBV. Mig langar bara að hjálpa mínu liði. Hjartað slær í Eyjum,“ segir Sigríður Lára, sem segir það hins vegar hafa verið kærkomna lífsreynslu að æfa og spila með besta liði Noregs, og kynnast því að vera atvinnumaður í íþróttinni.

Sigríður Lára Garðarsdóttir með verðlaunagripinn sem Noregsmeistari með Lilleström.
Sigríður Lára Garðarsdóttir með verðlaunagripinn sem Noregsmeistari með Lilleström. Ljósmynd/@sisilarag

„Þetta var mjög skemmtilegt og líka krefjandi. En ég er mjög heimakær. Það var erfitt að vera í burtu frá fjölskyldunni og það er ein ástæða þess að ég er að koma heim. Það var samt mjög gott að prófa þetta. Ég fékk öðruvísi reynslu og kynntist annars konar fótbolta sem þær spila. Þetta er virkilega gott lið og mikil gæði á æfingum þarna.“

Sigríður Lára er komin til landsins og verður á landsliðsæfingum um helgina, fyrstu æfingunum undir stjórn Jóns Þórs Haukssonar og Ian Jeffs, aðstoðarþjálfara. Jeffs hefur verið aðalþjálfari kvennaliðs ÍBV síðustu ár en hætti nú í haust til að taka við sem aðstoðarþjálfari kvennalandsliðsins, samhliða því að vera aðstoðarþjálfari karlaliðs ÍBV.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert