Heimsmeistararnir léku Íslendinga grátt

Frakkland vann 4:0-sigur á Íslandi á Stade de France í kvöld þegar liðin mættust í 2. umferð undankeppni EM karla í knattspyrnu.

Frakkar og Tyrkir eru því efstir í H-riðli með 6 stig, Íslendingar og Albanar eru með 3 stig, og Andorra og Moldóva 0. Ísland mætir næst Albaníu og Tyrklandi á Laugardalsvelli 8. og 11. júní og ljóst að þeir leikir eru gríðarlega mikilvægir í baráttunni um sæti á EM á næsta ári.

Erik Hamrén gerði fjórar breytingar á byrjunarliði sínu frá 2:0-sigrinum á Andorra á föstudag og stillti Alberti Guðmundssyni upp fremstum í 5-3-2 leikkerfi. Jóhann Berg Guðmundsson dró sig út úr hópnum í gær vegna meiðsla og Alfreð Finnbogason vék úr byrjunarliðinu þar sem hann er rétt að komast af stað eftir meiðsli. Auk Alberts komu Rúnar Már Sigurjónsson, Sverrir Ingi Ingason og Hörður Björgvin Magnússon inn í liðið.

Frakkar voru með mikla yfirburði í fyrri hálfleiknum en skoruðu þó aðeins eitt mark. Það gerði Samuel Umtiti úr fyrstu marktilraun þeirra, á 12. mínútu, þegar hann fann pláss á milli íslensku miðvarðanna og skallaði boltann í netið eftir fyrirgjöf Kylian Mbappé. Mbappé var síógnandi en íslensku varnarmönnunum gekk ágætlega að eiga við hann. Hins vegar var lítið um íslenskar sóknir og helst að Albert reyndi að búa eitthvað til gegn ógnarsterkri vörn Frakkanna. Ragnar Sigurðsson fékk langbesta færi Íslands í fyrri hálfleik eftir langt innkast Arons Einars Gunnarssonar og skalla Kára, en Ragnar hitti boltann ekki nægilega vel. Blaise Matuidi var hársbreidd frá því að koma Frökkum í 2:0 með skalla rétt fyrir hálfleik en þegar Rúmeninn István Kovács flautaði var munurinn eitt mark.

Rúnar Már meiddist á 57. mínútu og fór af velli en Arnór Ingvi Traustason kom inn á í hans stað. Alfreð kom svo inn fyrir Albert skömmu síðar. Frakkarnir sóttu ekki svo mikið en höfðu mjög góð tök á leiknum og áttu hættulegar skottilraunir, aðallega utan teigs. Þeir juku svo muninn verðskuldað í 2:0 um miðjan seinni hálfleik þegar Olivier Giroud náði að stinga sér á milli Hannesar og Kára og skora eftir fyrirgjöf Benjamin Pavard af hægri kantinum. Giroud kom boltanum aftur í netið skömmu síðar en var dæmdur rangstæður.

Frakkar voru ekki hættir því Mbappé, sem af viðbrögðum áhorfenda að dæma er sá vinsælasti í röðum heimsmeistaranna, skoraði þriðja markið eftir magnaða stungusendingu Antoine Griezmann. Griezmann skoraði svo sjálfur með afar snotru marki þegar hann slapp einn gegn Hannesi eftir hælsendingu Mbappé. Frakkarnir voru í raun farnir að leika sér á þessum tímapunkti og fögnuðu afskaplega öruggum sigri.

Leiknum var lýst beint frá Stade de France hér að neðan og viðtöl koma inn á mbl.is síðar í kvöld.

Frakkland 4:0 Ísland opna loka
90. mín. Antoine Griezmann (Frakkland) fær gult spjald Braut á Aroni og sparkaði svo boltanum í burtu.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert