Heimsmeistararnir léku Íslendinga grátt

Frakk­land vann 4:0-sig­ur á Íslandi á Stade de France í kvöld þegar liðin mætt­ust í 2. um­ferð undan­keppni EM karla í knatt­spyrnu.

Frakk­ar og Tyrk­ir eru því efst­ir í H-riðli með 6 stig, Íslend­ing­ar og Alban­ar eru með 3 stig, og Andorra og Moldóva 0. Ísland mæt­ir næst Alban­íu og Tyrklandi á Laug­ar­dals­velli 8. og 11. júní og ljóst að þeir leik­ir eru gríðarlega mik­il­væg­ir í bar­átt­unni um sæti á EM á næsta ári.

Erik Hamrén gerði fjór­ar breyt­ing­ar á byrj­un­arliði sínu frá 2:0-sigr­in­um á Andorra á föstu­dag og stillti Al­berti Guðmunds­syni upp fremst­um í 5-3-2 leik­k­erfi. Jó­hann Berg Guðmunds­son dró sig út úr hópn­um í gær vegna meiðsla og Al­freð Finn­boga­son vék úr byrj­un­arliðinu þar sem hann er rétt að kom­ast af stað eft­ir meiðsli. Auk Al­berts komu Rún­ar Már Sig­ur­jóns­son, Sverr­ir Ingi Inga­son og Hörður Björg­vin Magnús­son inn í liðið.

Frakk­ar voru með mikla yf­ir­burði í fyrri hálfleikn­um en skoruðu þó aðeins eitt mark. Það gerði Samu­el Umtiti úr fyrstu marktilraun þeirra, á 12. mín­útu, þegar hann fann pláss á milli ís­lensku miðvarðanna og skallaði bolt­ann í netið eft­ir fyr­ir­gjöf Kyli­an Mbappé. Mbappé var síógn­andi en ís­lensku varn­ar­mönn­un­um gekk ágæt­lega að eiga við hann. Hins veg­ar var lítið um ís­lensk­ar sókn­ir og helst að Al­bert reyndi að búa eitt­hvað til gegn ógn­ar­sterkri vörn Frakk­anna. Ragn­ar Sig­urðsson fékk lang­besta færi Íslands í fyrri hálfleik eft­ir langt innkast Arons Ein­ars Gunn­ars­son­ar og skalla Kára, en Ragn­ar hitti bolt­ann ekki nægi­lega vel. Blaise Matuidi var hárs­breidd frá því að koma Frökk­um í 2:0 með skalla rétt fyr­ir hálfleik en þegar Rúm­en­inn Ist­ván Kovács flautaði var mun­ur­inn eitt mark.

Rún­ar Már meidd­ist á 57. mín­útu og fór af velli en Arn­ór Ingvi Trausta­son kom inn á í hans stað. Al­freð kom svo inn fyr­ir Al­bert skömmu síðar. Frakk­arn­ir sóttu ekki svo mikið en höfðu mjög góð tök á leikn­um og áttu hættu­leg­ar skottilraun­ir, aðallega utan teigs. Þeir juku svo mun­inn verðskuldað í 2:0 um miðjan seinni hálfleik þegar Oli­vier Giroud náði að stinga sér á milli Hann­es­ar og Kára og skora eft­ir fyr­ir­gjöf Benjam­in Pav­ard af hægri kant­in­um. Giroud kom bolt­an­um aft­ur í netið skömmu síðar en var dæmd­ur rang­stæður.

Frakk­ar voru ekki hætt­ir því Mbappé, sem af viðbrögðum áhorf­enda að dæma er sá vin­sæl­asti í röðum heims­meist­ar­anna, skoraði þriðja markið eft­ir magnaða stungu­send­ingu Antoine Griezmann. Griezmann skoraði svo sjálf­ur með afar snotru marki þegar hann slapp einn gegn Hann­esi eft­ir hæl­send­ingu Mbappé. Frakk­arn­ir voru í raun farn­ir að leika sér á þess­um tíma­punkti og fögnuðu af­skap­lega ör­ugg­um sigri.

Leikn­um var lýst beint frá Stade de France hér að neðan og viðtöl koma inn á mbl.is síðar í kvöld.

Frakk­land 4:0 Ísland opna loka
skorar Samuel Umtiti (12. mín.)
skorar Olivier Giroud (68. mín.)
skorar Kylian Mbappé (78. mín.)
skorar Antoine Griezmann (84. mín.)
Mörk
fær gult spjald Antoine Griezmann (90. mín.)
Spjöld
fær gult spjald Birkir Bjarnason (51. mín.)
mín.
90 Leik lokið
Heimsmeistararnir einfaldega allt of sterkir í kvöld.
90
Smá tækifæri fyrir okkar menn. Hörður Björgvin vinnur skallaeinvígi en Alfreð nær ekki að stýra boltanum að marki með höfðinu í kjölfarið.
90 Antoine Griezmann (Frakkland) fær gult spjald
Braut á Aroni og sparkaði svo boltanum í burtu.
89 Moussa Sissoko (Frakkland) kemur inn á
89 Olivier Giroud (Frakkland) fer af velli
Giroud skoraði annað mark Frakka.
89 Thomas Lemar (Frakkland) á skot framhjá
Skot af um 25 metra færi, boltinn hátt yfir.
85 Presnel Kimpembe (Frakkland) kemur inn á
85 Layvin Kurzawa (Frakkland) fer af velli
84 MARK! Antoine Griezmann (Frakkland) skorar
4:0 - Heimsmeistararnir eru að fara illa með íslenska liðið í seinni hálfleik. Þeir eru stórhættulegir í hvert skipti sem þeir fara fram völlinn. Griezmann klárar með vippu yfir Hannes eftir glæsilega hælsendingu hjá Mbappé.
84 Ari Freyr Skúlason (Ísland) kemur inn á
84 Birkir Már Sævarsson (Ísland) fer af velli
83 Gylfi Þór Sigurðsson (Ísland) á skot sem er varið
Besta færi íslenska liðsins til þessa. Arnór Ingvi slapp upp hægra megin eftir sendingu Birkis Más. Arnór sendi svo boltann fyrir, en Gylfi nær ekki nægilega föstu skoti í góðri stöðu og Lloris ver.
80 Thomas Lemar (Frakkland) kemur inn á
80 N'Golo Kanté (Frakkland) fer af velli
Kanté átti virkilega góðan leik á miðsvæðinu.
78 MARK! Kylian Mbappé (Frakkland) skorar
3:0 - Frakkarnir eru búnir að vera mikið betri eftir annað markið og í raun í öllum leiknum og þetta er fallegt mark. Mbappé klárar einn gegn Hannesi eftir stórglæsilega sendingu frá Griezmann, sem splúndraði íslensku vörninni. Heimsmeistararnir eru rosalega góðir.
75
Skyndisókn hjá Frökkum. Þeir voru þrír á þrjá en Sverrir Ingi bjargaði á síðustu stundu með virkilega góðri tæklingu.
73
Giroud kemur boltanum aftur í netið af stuttu færi eftir fallega sendingu frá Griezmann, en sem betur fer var Giroud í rangstöðu.
68 MARK! Olivier Giroud (Frakkland) skorar
2:0 - Ekki ósvipað mark og áðan, en núna er það Giroud sem stýrir boltanum í netið af stuttu færi eftir sendingu frá Pavard frá hægri. Hannes stökk á eftir boltanum, en missti af honum og Giroud setti boltann í autt markið. Klaufalegt hjá Hannesi og eftirleikurinn auðveldur fyrir Giroud.
66 Olivier Giroud (Frakkland) á skot framhjá
Næstum því afar fallegt franskt mark. Pogba með glæsilega vippu yfir íslensku vörnina og beint á Giroud sem hittir ekki markið, nánast frá markteig.
65
Íslendingar reyna. Aron Einar með langt innkast og Kanté skallar að eigin marki, en Lloris nær boltanum áður en hann fer aftur fyrir í horn.
64
Giroud skallar boltann fyrir markið en Matuidi rétt missir af boltanum.
63
Frakkar eru að herða tökin. Þeir vilja skora annað markið, sem mun gera þetta mun þægilegra fyrir heimamenn.
62 Blaise Matuidi (Frakkland) á skot framhjá
Reynir skot utan teigs, boltinn hátt yfir. Frakkar eru ekki að hitta markið í seinni hálfleik.
62 Alfreð Finnbogason (Ísland) kemur inn á
62 Albert Guðmundsson (Ísland) fer af velli
62 Antoine Griezmann (Frakkland) á skot framhjá
Gott færi. Griezmann kemst fram hjá Herði Björgvin en skotið hans rétt utan teigs hittir ekki markið.
60
Alfreð Finnbogason er nú að gera sig kláran til að koma inn á.
58 Benjamin Pavard (Frakkland) á skot framhjá
Aftur er bakvörðurinn nálægt því að skora með föstu skoti utan teigs. Smellhittir boltann, en sem betur fer, er þetta hárfínt framhjá. Þvílíkur skotmaður.
57 Arnór Ingvi Traustason (Ísland) kemur inn á
Hans 27. landsleikur. Hann skoraði eitt frægasta mark íslenskrar knattspyrnu á móti Austurríki á þessum velli á EM 2016.
57 Rúnar Már Sigurjónsson (Ísland) fer af velli
57
Rúnar Már er lagstur í grasið. Hann heldur ekki áfram. Arnór Ingvi Traustason mun koma inn í hans stað.
56 Frakkland fær hornspyrnu
Matuidi sækir upp vinstri kantinn og vinnur horn. Griezmann tekur þetta.
53
Skemmtilegar fyrstu mínútur seinni hálfleik. Íslenska liðið reynir að sækja, en Frakkar eru áfram hættulegir.
51 Birkir Bjarnason (Ísland) fær gult spjald
Missir boltann klaufalega á miðjunni og tekur Giroud niður. Getur ekki kvartað yfir þessum dómi.
49
Tvær hættulegar sóknir hjá Frökkum eftir skot Birkis. Fyrst reynir Mbappé sendingu á Giroud, en Kári og Hannes gera vel saman og stöðva það. Örfáum sekúndum seinna kemst Mbappé bak við Hörð, en Hörður vann vel til baka og bjargaði.
49 Birkir Bjarnason (Ísland) á skot sem er varið
Besta tilraun íslenska liðsins til þessa. Birkir með fast skot rétt utan teigs. Boltinn stefndi í bláhornið niðri en Lloris ver vel.
46 Seinni hálfleikur hafinn
Frakkar byrja með boltann í seinni hálfleik. Bæði lið óbreytt.
45 Hálfleikur
Sanngjörn staða í hálfleik og í raun gæti munurinn verið meiri þó að Frakkar hafi ekki fengið neinn aragrúa færa. Raggi komst næst því að skora fyrir Ísland en hitti boltann ekki nægilega vel með höfðinu í góðu færi.
43 Blaise Matuidi (Frakkland) á skalla sem fer framhjá
Ja hérna. Matuidi svo nálægt því að skora mark keimlíkt skallamarki Umtiti. Boltinn fór sentímetra framhjá.
42 Ísland fær hornspyrnu
Kári gerir vel í að teygja sig í boltann og skalla í horn.
41 Benjamin Pavard (Frakkland) á skot framhjá
Hver einasti Frakki á vellinum var farinn að sjá fyrir sér annað draumamark frá bakverðinum, eins og á HM, þegar boltinn skoppaði út fyrir teiginn til hans en í þetta sinn fór skotið rétt yfir markið.
40 Frakkland fær hornspyrnu
Birkir Már er aleinn en veit ekki af því og skallar boltann aftur fyrir endamörk. Önnur hornspyrna.
40 Frakkland fær hornspyrnu
38
Albert gerir vel í að skýla boltanum frá Pogba og kemst einn fram í skyndisókn en má að lokum ekki við margnum. Hefði þurft aðeins betri hjálp þarna.
37
Frakkar vörðust innkastinu og svo var bara kveikt í eldflauginni sem Mbappé er. Sem betur fer er Birkir Már Sævarsson fljótur líka og hann kom boltanum að lokum í innkast.
36
Varane varðist aukaspyrnunni en boltinn fór til Alberts sem var of lengi og náði ekki skoti á markið. Ísland fær innkast.
35
Birkir Bjarna fær högg í andlitið frá Kanté úti á kanti, í línu við vítateiginn. Aukaspyrna. Fín staða fyrir fyrirgjöf frá Gylfa.
34 Kylian Mbappé (Frakkland) á skot framhjá
Mbappé búinn að vera óþægilega frískur í þessum fyrri hálfleik. Átti núna skot af vítateignum rétt framhjá, eftir gott spil Frakkanna.
32
Mbappé fær sendingu yfir vörn Íslands að endamörkunum og nær sendingu fyrir markið en hún fer beint á Hannes og engin hætta á ferð.
30
Ísland er ekki að ná að byggja upp neinar sóknir hérna og Frakkar eru ekki að stressa sig á stöðunni. Rólegar síðustu mínútur.
24 Kylian Mbappé (Frakkland) á skot framhjá
Úff. Skot rétt framhjá eftir að Mbappé hafði nýtt sprengikraft sinn til að fara til hliðar við Hörð í teignum.
22 Gylfi Þór Sigurðsson (Ísland) á skot sem er varið
Góð aukaspyrna frá Rúnari og Kári gerir vel í að skalla boltann út á Gylfa en hann hitti boltann ekki nægilega vel enda með sáralítinn tíma til að athafna sig. Vantaði ekki mikið upp á þarna.
21
Kanté brýtur á Alberti í upphafi skyndisóknar. Dómarinn gerir honum ljóst að næst fari gula spjaldið á loft.
19
Mbappé kastar sér niður í teignum og Frakkar vilja vítaspyrnu en þetta var bara leikaraskapur. Albert kom varla við hann. Ekkert dæmt.
18
Okkar menn verjast hornspyrnunni og eru komnir með boltann.
17 Frakkland fær hornspyrnu
17 Olivier Giroud (Frakkland) á skalla sem er varinn
Frábær skalli en stórkostleg markvarsla hjá Hannesi!
17 Ragnar Sigurðsson (Ísland) á skalla sem er varinn
Úff. Þetta leit út fyrir að vera frábært færi, eftir innkast Arons og skalla Kára yfir á fjærstöng. Raggi náði hins vegar alls ekki krafti í skallann.
16
Albert gerir vel í að búa til sókn fyrir Ísland. Fáum langt innkast frá Aroni.
15 Olivier Giroud (Frakkland) á skalla sem fer framhjá
Náði engan veginn að stýra boltanum sem fór í háum boga yfir markið.
14 Frakkland fær hornspyrnu
12 MARK! Samuel Umtiti (Frakkland) skorar
1:0 - Frakkar skora úr fyrsta færinu sínu. Umtiti skallaði boltann í stöng og inn eftir sendingu Mbappé af vinstri kantinum. Hann var ennþá í teignum eftir hornspyrnuna.
11
Raggi mættur á nærstöng og skallar boltann í burtu.
11 Frakkland fær hornspyrnu
Mbappé þarf bara að snerta boltann til að áhorfendur öskri upp yfir sig. Kári varðist honum vel en Frakkar fá hornspyrnu.
9
Frakkar nálægt því að spila sig í gegnum vörn Íslands en Matuidi náði ekki að taka við sendingu Griezmann.
7
Íslenska liðið náði nokkrum sendingum sín á milli á meðan að Mbappé var út af en hann er kominn inn á aftur núna.
5
Birkir Bjarna vann boltann af Mbappé úti við hliðarlínu og Frakkinn liggur voða þjáður eftir. Leikurinn heldur áfram meðan að hlúð er að honum. Þetta virkaði nú ekki alvarlegt.
3
Mbappé nálægt því að komast í færi en Ragnar stóð vel á móti honum og leyfði honum ekki að ná skoti. Frakkarnir eru strax búnir að taka stjórnina í þessum leik eins og búast mátti við.
1 Leikur hafinn
Íslendingar byrja með boltann. Annar leikur liðsins í undankeppni EM 2020 er hafinn.
0
19.42 - Það er setið í nánast hverju sæti hérna og Frakkarnir tóku duglega undir í þjóðsöngnum sínum. Ekki laust við að maður sé orðinn spenntur. Nú má þetta fara að byrja.
0
19.38 - Þá koma menn inn á völlinn aftur, sem nú er búið að skreyta fallega með sérstökum afmælisdúk. Við hlustum nú á þjóðsöngvana.
0
19.36 - Rúmeninn Istvan Kovács sér um að dæma þennan leik. Hann hefur dæmt sjö A-landsleiki á síðustu þremur árum og er einnig með góða reynslu úr Evrópudeildinni og Meistaradeildinni.
0
19.35 - Frakkarnir aðeins að leyfa sér smá nostalgíu hérna á afmælinu og bjóða upp á frábært vídjó með myndum af helstu hetjum franska landsliðsins frá upphafi auk upprifjunar frá HM í Rússlandi í fyrra. Sómi að þessu.
0
19.30 - Frakkar fagna nú 100 ára afmæli franska knattspyrnusambandsins og leikmenn franska liðsins klæðast sérstökum afmælistreyjum í leiknum af því tilefni.
0
19.28 - Frakkar eru hrifnari af víkingaklappinu en baguettebrauði. Þeir voru alveg heillaðir af stuðningsmönnum íslenska liðsins á EM 2016, og eru með sitt eigið svipaða klapp sem þeir voru að æfa rétt í þessu.
0
19.25 - Strákarnir eru farnir inn í klefa. Tuttugu mínútur í leik. Birkir Bjarna er vafinn um vinstri kálfann eins og á æfingu í gær en er vonandi í lagi.
0
19.23 - Stade de France tekur rúmlega 80.000 manns í sæti en mér skilst að það sé ekki alveg uppselt á leikinn, heldur verði hér um 70.000 áhorfendur. Þar af ættu að vera um 250 Íslendingar samkvæmt KSÍ. Það hafa því ekki margir skellt sér á flugmiða til að koma hingað á leikinn, einhverra hluta vegna. Ég er ágætlega staddur hér fyrir miðjum velli, aðeins fyrir ofan staðinn þar sem að Gummi Ben, pabbi Alberts, missti vitið í lýsingu á sigurmarki Arnórs Ingva gegn Austurríki 2016.
0
19.15 - Okkar menn eru bara að hita upp. Hálftími í leik.
0
19.12 - Ég var í stúkunni og sá þegar Rúnar Már gerði Frakka alveg brjálaða með því að tækla Kylian Mbappé niður í vináttulandsleiknum í október. Þetta gerðist fyrir framan varamannaskýli Frakka og ég man að Paul Pogba var meðal þeirra sem voru hvað æstastir. Jói Berg kom af bekk Íslands til að rífa kjaft við hann á móti og verja sinn mann. Ég er ekki viss um að Mbappé muni hins vegar eftir þessu, enda ósjaldan brotið á þessum ótrúlega fljóta og góða knattspyrnumanni.
0
19.05 - Í grein sinni í L‘Equipe í dag lýsir félagi okkar á Mogganum, Grégoire Fleurot, Íslandi sem „sofandi eldfjalli“. Þar talar hann um að Ísland hafi aðeins unnið einn af síðustu 16 leikjum sínum en að Frakkar muni hvernig íslenska liðið sló í gegn á EM 2016 og hafi því varann á.
0
19.00 - Raphaël Varane, miðvörður Frakka, var þriðji efstur hjá Aroni Einari Gunnarssyni í valinu á knattspyrnumanni ársins í fyrra. Aron var með Modric og Ronaldo ofar en taldi Varane eiga atkvæði skilið eftir að hafa verið lykilmaður í Evrópumeistaratitli Real Madrid og heimsmeistaratitli Frakka.
0
18.54 - Langafi og alnafni Alberts gerði auðvitað garðinn frægan hérna í Frakklandi um miðja síðustu öld, með Nancy, RC París og Nice, og vonandi gefur það bara góð fyrirheit.
0
18.47 - Viðar Örn Kjartansson skoraði sitt þriðja landsliðsmark og í fyrsta sinn í mótsleik þegar hann skoraði seinna mark Íslands gegn Andorra á föstudaginn. Markið var sannarlega glæsilegt og það virðist hafa haft góð áhrif á Selfyssinginn að fá létt skot á sig frá Kjartani Henry Finnbogasyni á Twitter fyrir leikinn, fyrir það að hætta við að hætta í landsliðinu. Spurning hvort Kjartan hefði ekki þurft að henda í aðra færslu fyrir leikinn í kvöld.
0
18.40 - Birkir Bjarnason hefur skorað í þremur síðustu leikjum gegn Frökkum. Þeir Kári Árnason skoruðu í 2:2-jafnteflinu í október, en Birkir og Kolbeinn Sigþórsson skoruðu fyrir Ísland í 5:2-tapinu á EM 2016 og í 3:2-tapinu í vináttulandsleik árið 2012, einum af fyrstu leikjunum undir stjórn Lars og Heimis. Birkir skoraði sitt ellefta landsliðsmark í 2:0-sigrinum á Andorra.
0
18.37 - Ísland hefur nú ekki mikið verið að spila með þriggja miðvarða kerfi. Undir stjórn Lars og Heimis lék liðið alltaf með tvo miðverði, alla vega í mótsleikjum. Hamrén prófaði að nota þrjá miðverði gegn Belgum í lokaleik Þjóðadeildarinnar í nóvember, þar sem Belgar unnu 2:0. Ragnar Sigurðsson gat ekki leikið þá vegna meiðsla og var Jón Guðni Fjóluson í vörninni.
0
18.35 - Þetta er klárlega stærsti leikur sem Albert hefur spilað í byrjunarliði Íslands og hið sama má segja um Rúnar Má. Albert kom þó inn á í nokkrar mínútur í leiknum við Króatíu á HM síðasta sumar og var í byrjunarliðinu gegn Belgíu í lokaleiknum í Þjóðadeildinni í haust. Rúnar lék þrjá leiki í Þjóðadeildinni í haust og síðasta hálftímann gegn Andorra á föstudaginn.
0
18.30 - Það er ekki hægt að lýsa því öðruvísi en sem áfalli að Jóhann Berg Guðmundsson geti ekki spilað í kvöld. Hann er einn af okkar helstu lykilmönnum. Jóhanns var sárt saknað í Þjóðadeildinni síðasta haust, þar sem hann spilaði aðeins einn leik af fjórum, þann langskársta hjá íslenska liðinu, og hans var einnig sárt saknað gegn Nígeríu á HM síðasta sumar. Hann fór heim til Englands í gær vegna meiðsla sinna í kálfa.
0
18.29 - Frakkarnir eru með sama byrjunarlið og vann Moldóvu á föstudag. Eini vafinn var hvort að Umtiti yrði klár í annan leik strax en hann er í vörninni með Varane.
0
18.20 - Byrjunarliðið er klárt og ljóst að Alfreð Finnbogason treystir sér ekki í annan leik í byrjunarliðinu með svo stuttu millibili. Albert Guðmundsson fær óvænt tækifæri í hans stað sem fremsti maður. Rúnar Már kemur inn á miðjuna og við stillum upp í fimm manna varnarkerfi, þar sem Sverrir Ingi bætist við og Hörður kemur í stað Ara.
0
18.15 - Ísland vann Andorra 2:0 á föstudaginn með mörkum frá Birki Bjarnasyni og Viðari Erni Kjartanssyni. Á sama tíma rúllaði Frakkland yfir Moldóvu, 4:1, þar sem Antoine Griezmann, Raphaël Varane, Olivier Giroud og Kylian Mbappé skoruðu fyrir Frakka. Tyrkland vann svo 2:0-útisigur á Albaníu í þriðja leiknum í H-riðli. Tvö af þessum sex liðum verða komin með sæti á EM þegar undankeppninni lýkur í nóvember.
0
18.15 - Gott kvöld kæru lesendur! Velkomin með mbl.is á Stade de France þar sem Ísland leikur við heimsmeistara Frakka í 2. umferð undankeppni EM í knattspyrnu. Nú er komið að skrefi númer tvö af tíu á leiðinni á næsta stórmót, sem fram fer víða um Evrópu á næsta ári.
Sjá meira
Sjá allt

Frakkland: (4-4-2) Mark: Hugo Lloris. Vörn: Benjamin Pavard, Samuel Umtiti, Raphaël Varane, Layvin Kurzawa (Presnel Kimpembe 85). Miðja: Kylian Mbappé, N'Golo Kanté (Thomas Lemar 80), Paul Pogba, Blaise Matuidi. Sókn: Antoine Griezmann, Olivier Giroud (Moussa Sissoko 89).
Varamenn: Steve Mandanda (M), Alphonse Areola (M), Presnel Kimpembe, Thomas Lemar, Kurt Zouma, Moussa Sissoko, Nabil Fekir, Djibril Sidibé, Florian Thauvin, Tanguy Ndombele.

Ísland: (5-3-2) Mark: Hannes Þór Halldórsson. Vörn: Birkir Már Sævarsson (Ari Freyr Skúlason 84), Sverrir Ingi Ingason, Kári Árnason, Ragnar Sigurðsson, Hörður B. Magnússon. Miðja: Aron Einar Gunnarsson, Birkir Bjarnason, Rúnar Már Sigurjónsson (Arnór Ingvi Traustason 57). Sókn: Gylfi Þór Sigurðsson, Albert Guðmundsson (Alfreð Finnbogason 62).
Varamenn: Ögmundur Kristinsson (M), Rúnar Alex Rúnarsson (M), Jón Guðni Fjóluson, Guðlaugur Victor Pálsson, Viðar Örn Kjartansson, Alfreð Finnbogason, Hjörtur Hermannsson, Rúrik Gíslason, Arnór Sigurðsson, Arnór Ingvi Traustason, Ari Freyr Skúlason.

Skot: Frakkland 15 (5) - Ísland 4 (4)
Horn: Frakkland 6 - Ísland 1.

Lýsandi: Sindri Sverrisson
Völlur: Stade de France

Leikur hefst
25. mars 2019 19:45

Aðstæður:
Milt og gott veður. Völlurinn frábær.

Dómari: István Kovács, Rúmeníu
Aðstoðardómarar: Vasile Florin Marinescu og Ovidiu Artene, Rúmeníu

mbl.is

Íslenski fótboltinn

Meira
L U J T Mörk +/- Stig
1 Frakkland 2 2 0 0 4:2 2 6
2 Noregur 2 1 0 1 2:2 0 3
3 Ísland 2 0 1 1 2:3 -1 1
4 Sviss 2 0 1 1 1:2 -1 1
25.02 Frakkland 3:2 Ísland
25.02 Noregur 2:1 Sviss
21.02 Frakkland 1:0 Noregur
21.02 Sviss 0:0 Ísland
04.04 16:45 Ísland : Noregur
04.04 19:00 Sviss : Frakkland
08.04 16:45 Ísland : Sviss
08.04 18:00 Noregur : Frakkland
30.05 18:00 Noregur : Ísland
30.05 19:10 Frakkland : Sviss
03.06 18:00 Ísland : Frakkland
03.06 18:00 Sviss : Noregur
urslit.net
Fleira áhugavert

Íslenski fótboltinn

Meira
L U J T Mörk +/- Stig
1 Frakkland 2 2 0 0 4:2 2 6
2 Noregur 2 1 0 1 2:2 0 3
3 Ísland 2 0 1 1 2:3 -1 1
4 Sviss 2 0 1 1 1:2 -1 1
25.02 Frakkland 3:2 Ísland
25.02 Noregur 2:1 Sviss
21.02 Frakkland 1:0 Noregur
21.02 Sviss 0:0 Ísland
04.04 16:45 Ísland : Noregur
04.04 19:00 Sviss : Frakkland
08.04 16:45 Ísland : Sviss
08.04 18:00 Noregur : Frakkland
30.05 18:00 Noregur : Ísland
30.05 19:10 Frakkland : Sviss
03.06 18:00 Ísland : Frakkland
03.06 18:00 Sviss : Noregur
urslit.net
Fleira áhugavert