„Ég gerðist sekur um hrapallegt dómgreindarleysi og biðst innilegrar afsökunar á þessum heimskulegu ummælum mínum,“ segir Björgvin Stefánsson, sóknarmaður KR, sem lét út úr sér miður falleg ummæli í vefútsendingu frá leik Hauka og Þróttar R. í 1. deild karla í fótbolta í kvöld.
Björgvin, sem er fyrrverandi leikmaður Hauka, var annar tveggja sem lýstu leiknum á youtuberás Hauka. Um miðbik fyrri hálfleiks, þegar upp úr sauð á milli leikmanna sem endaði með því að Arnar Aðalgeirsson úr Haukum og Archange Nkumu úr Þrótti fengu gult spjald, sagði hann eftirfarandi: „Þetta er það sem ég er alltaf að segja. Það er svo stutt í villimannseðlið hjá svarta manninum,“ en Nkumu, sem lék í fjögur ár með KA áður en hann kom til Þróttar í vetur, er dökkur á hörund.
Eftir að athygli hafði verið vakin á ummælum Björgvins á Twitter var hann fljótur að biðjast afsökunar á þeim og skrifaði eftirfarandi á twittersíðu sína:
„Í ljósi umræðu sem skapaðist í kjölfar ummæla sem ég lét falla í beinni útsendingu á HaukarTV vil ég biðja alla afsökunar og undirstrika að ummælin voru vanhugsuð og sögð í hugsunarleysi. Þau lýsa engan veginn afstöðu minni í garð þeirra sem eru dökkir á hörund frekar en annarra minnihlutahópa. Ég gerðist sekur um hrapallegt dómgreindarleysi og biðst innilegrar afsökunar á þessum heimskulegu ummælum mínum.“
Þróttur vann leikinn 4:2 en hægt er að lesa meira um leiki kvöldsins hér.
Uppfært: Stjórn knattspyrnudeildar Hauka hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem hún harmar ummæli Björgvins.