Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, hefur tjáð sig á Twitter um reiði Tyrkja vegna meðferðar karlaliðs þjóðarinnar í fótbolta á Leifsstöð í gær. Tyrkir reiddust mjög vegna tafa sem urðu á ferð landsliðsins í gegnum eftirlit á flugvellinum.
Reiðin varð síðan enn meiri þegar maður sem þóttist vera blaðamaður fór upp að Emre Belözoglu, fyrirliða Tyrkja, með uppþvottabursta. Héldu tyrkneskir stuðningsmenn að um Íslending var að ræða, en síðan kom í ljós að maðurinn er frá Belgíu.
Facebook-síða KSÍ hefur logað með ljótum skilaboðum frá Tyrkjum síðan í gærkvöldi og hinir ýmsu Íslendingar hafa fundið fyrir reiði Tyrkjanna. Bjarni er nú orðinn einn þeirra en hann gerði lítið úr atvikinu í Twitter-færslu sinni.
Hér að neðan má sjá færsluna hjá Bjarna. Hún er komin með 462 athugasemdir þegar fréttin er skrifuð, flestar frá Tyrkjum, sem eru vægast sagt ósáttir.
Að sinna öryggiseftirliti á alþjóðaflugvelli finnst mér skipta máli. Að sjá mann með uppþvottabursta í stað hljóðnema dálítið fyndið en ekki móðgun. Ég reiðist ekki þegar erlent tungumál er þýtt á ensku í stað íslensku. Fótbolti snýst um gleði og skemmtun. Áfram Ísland!
— Bjarni Benediktsson (@Bjarni_Ben) June 10, 2019