„Lykilatriði að vinna heimaleikina“

Jón Þór Hauksson ásamt Dagnýju Brynjarsdóttur og Margréti Láru Viðarsdóttur …
Jón Þór Hauksson ásamt Dagnýju Brynjarsdóttur og Margréti Láru Viðarsdóttur þegar úrslitin lágu fyrir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Jón Þór Hauksson, landsliðsþjálfari kvenna í knattspyrnu, var ánægður með íslenska liðið í síðari hálfleik í kvöld þegar Ísland vann Ungverjaland 4:1 í fyrsta leik sínum í undankeppni EM. Leikurinn var fyrsti mótsleikur Jóns sem landsliðsþjálfari. 

Hvernig var upplifunin? „Þetta var smá rússíbani. Við byrjuðum frábærlega og skoruðum tvö mörk á fyrstu tíu mínútunum en annað var dæmt af. Byrjunin var virkilega öflug hjá okkur og þá fannst mér við gera þá hluti sem við höfðum undirbúið mjög vel. Síðan duttum við niður og leikmenn urðu aðeins værukærar. Við hættum að gera þá hluti sem höfðu virkað. Þess í stað fórum við að gera hluti sem við viljum ekki gera. Fyrir vikið hleyptum við þeim inn í leikinn sem var alger óþarfi. Staðan var því 1:1 í hálfleik en mér fannst stelpurnar svara því frábærlega í síðari hálfleik. Ég er í skýjunum með karakterinn og liðsheildina í síðari hálfleik. Innkoma varamannanna var virkilega sterk sem er nokkuð sem skiptir okkur gríðarlega miklu máli. Þær sem komu inn á höfðu áhrif á liðið, lögðu upp mörk, komu sér í færi og tóku menn á í stöðunni einn á móti einum. Ég er mjög ánægður með mjög margt í þessum leik og fyrst og fremst úrslitin,“ sagði Jón og tók undir það að 4:1 sigur sé fín byrjun á nýrri keppni. 

„Algerlega. Við erum komnir með þrjú stig og unnum á heimavelli. Við ætlum okkur að gera heimavöllinn að vígi og höfum rætt um það að lykilatriði sé að vinna heimaleikina til að komast áfram í keppninni. Við gerðum það í kvöld og tökum það með okkur.“

Spurður um hvort hann hafi verið stressaður á hliðarlínunni í frumraun sinni sem landsliðsþjálfari í stórkeppni sagðist Jón Þór hafa verið furðu rólegur. „Nei ég var ótrúlega rólegur. Ég var hins vegar ekki sáttur við þennan slaka kafla okkar í fyrri hálfleik og fannst það óþarfi. Við fórum aðeins yfir það í hálfleik og það skilaði sér mjög vel í seinni hálfleik,“ sagði Jón Þór í samtali við mbl.is á Laugardalsvelli. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert