Ísland tapaði fyrsta leik sínum í undankeppni EM og HM á heimavelli í rúm sex ár þegar heimsmeistarar Frakka fóru með sigur af hólmi 1:0 í undankeppni EM á Laugardalsvellinum í kvöld.
Olivier Giroud skoraði sigurmarkið úr vítaspyrnu á 66. mínútu. Antoine Griezmann fiskaði vítaspyrnuna eftir viðskipti við Ara Frey Skúlason. Vissulega var um snertingu að ræða en Barcelona maðurinn var lengi að detta í grasið og ítalski dómarinn var fljótur að benda á vítapunktinn. Giroud skoraði úr vítaspyrnunni af miklu öryggi.
Fyrri hálfleikurinn var frekar tíðindalítill en á 15. mínútu varð Jóhann Berg Guðmundsson að fara af velli en svo virtist sem hann hafi tognað. Jón Daði Böðvarsson tók stöðu hans. Frakkar réðu ferðinni en gekk illa að finna glufur á vel skipulagðri vörn íslenska liðsins.
Íslendingar átt ekki margar sóknir í fyrri hálfleiknum en þeir náðu einni góðri sókn eftir hálftíma leik sem lauk með því að Jón Daði átti ágætt skot sem Steve Mandanda varði. Frakkarnir keyrðu aðeins upp hraðann síðustu 10 mínútur leiksins og Antoine Griezman fékk ágæt marktækifæri á 42 mínútu en Hannes Þór var vel staðsettur og varði fast skot Barcelona mannsins.
Frakkar réðu áfram ferðinni í seinni hálfleik en eins og þeim fyrri náðu þeir ekkert að opna íslensku vörnina að neinu ráði. Eftir að Íslendingar lendu undir og freistuðu þess að sækja fram á völlinn fengu Frakkar nokkrar góðar skyndisóknir og úr einni slíkri átti Matuidi skot í stöngina.
Alfreð Finnbogason kom inná á 72. mínútu og þar með voru þrír sóknarmenn í íslenska liðinu síðustu 20 mínúturnar. Íslendingar náðu ekki að ógna marki Frakka að neinu ráði og heimsmeistararnir héldu fengum hlut og innbyrtu 11. sigur sinn gegn Íslendingum í 15 leikjum.
Það vantaði ekkert upp á baráttuna og kraftinn hjá íslenska liðinu. Varnarleikurinn var góður og skipulagið á liðinu gott en sóknaraðgerðirnar voru frekar máttlitlar. Þegar komið var inn á síðasta þriðjung vallarins vantaði meiri árræðni, of oft tapaðist boltinn á því svæði og strákarnir okkar náðu lítið að ógna marki Frakkanna. En ekki má gleyma því að Frakkar eru ríkjandi heimsmeistarar sem hafa heimsklassa leikmenn í flestum stöðum og engin skömm að tapa fyrir þeim. Íslendingar stóðu svo sannarlega í besta liði heims sem þurfti svo sannarlega að hafa fyrir því að leggja litla Ísland að velli.
Þetta var annað tap íslenska liðsins í röð og ljóst er að liðið verður að vinna þrjá síðustu leiki sína gegn Andorra, Tyrklandi og Moldóvu til að eiga einhverja möguleika á að komast beint í úrslitakeppni Evrópumótsins og treysta á að Frakkar vinni Tyrki en að öðrum kosti liggur möguleikinn að komast á EM með því að komast í umspil sem verður í mars.
Tyrkir höfðu betur á móti Albönum 1:0 og þar með eru Frakkar og Tyrkir komnir með 18 stig en Íslendingar eru í þriðja sæti með 12 stig þegar þrjár umferðir eru eftir. Ísland tekur á móti Andorra á mánudaginn og leikur síða gegn Tyrklandi og Moldóvu í næsta mánuði.