„Þetta er bara einn leikur, það gæti aukið möguleikann á að komast áfram. Það er oft erfitt í tveimur leikjum en svo er hægt að ramba á sigur í einum leik,“ sagði Logi Ólafsson, þjálfari FH, um dráttinn í Evrópudeildinni en Hafnfirðingar mæta slóvakíska liðinu Dunajská Streda á heimavelli 27. ágúst.
FH var eina íslenska liðið í efri styrkleikaflokki fyrir dráttinn og gat einnig mætt finnsku liðunum Ilves og Honka. Aðeins er leikinn einn leikur í hverri umferð í keppninni í ár. Sennilega mæta Hafnfirðingar erfiðasta liðinu sem þeir gátu fengið en fengu þó heimaleik.
„Sennilega eru finnsku liðin tvö slakari andstæðingur en það er líka oft gott að hafa mótherjann betri þannig að menn komi á tánum inn í svona verkefni.“
FH-ingar bíða þó í von og óvon um hvort þeir fái að spila leikinn í Kaplakrika. Ekki má spila fótboltaleiki á Íslandi núna vegna hertra aðgerða yfirvalda til að sporna við kórónuveirunni og þá geta lið ekki æft með hefðbundnum hætti vegna tveggja metra reglunnar.
„Mér skilst að það hafi verið góð von um daginn en þá komu 17 partísmit frá Vestmannaeyjum og miðborg Reykjavíkur sem stoppuðu okkur af,“ sagði Logi en beiðni KSÍ um undanþágu frá reglunum til að lið gætu bæði æft og keppt var hafnað í kjölfar þess að sautján smit greindust innanlands í síðustu viku.
Logi var að ræða við Guðmund Hilmarsson í viðtali sem FH-ingar birtu á samfélagsmiðlum sínum og má horfa á það í heild sinni í spilaranum hér að neðan.