Knattspyrnudeild Njarðvíkur hefur verið sektuð um 50.000 krónur vegna ummæla sem Mikael Nikulásson, þjálfari liðsins, lét falla í hlaðvarpsþættinum Dr. Football hinn 28. september síðastliðinn.
Klara Bjartmarz, framkvæmdastýra KSÍ, vísaði ummælum Mikaels til aga- og úrskurðarnefndar KSÍ sem tók þau fyrir á fundi sínum á þriðjudaginn síðasta.
Mikael vildi sjá Beiti Ólafsson, markvörð KR í efstu deild karla, úrskurðaðan í tveggja leikja bann fyrir að slá til Ólafs Inga Skúlasonar í leik liðanna í september.
Marc McAusland, spilandi aðstoðarþjálfari Njarðvíkur, var úrskurðaður í tveggja leikja bann á dögunum fyrir að slá til mótherja síns og vildi Mikael fá svipaðan úrskurð í máli Beitis.
„Þetta er 100% tveggja leikja bann. Ég mun brenna Laugardalinn persónulega sjálfur ef hann fær ekki tveggja leikja bann, það er bara þannig.
Mér er alveg sama, mér er alveg sama, málið er það að Framararnir, ég er náttúrulega gamall Framari, þá bara fer ég með þeim í það. Að sjálfsögðu er þetta tveggja leikja bann,“ sagði Mikael meðal annars í hlaðvarpsþættinum Dr. Football.
„Var um að ræða opinber ummæli sem eru ósæmileg að mati framkvæmdastjóra og með þeim hafi álit almennings á íþróttinni og starf knattspyrnuhreyfingarinnar rýrt,“ segir meðal í fréttatilkynningu aga- og úrskurðarnefndar KSÍ um ummælin.