Mikael Neville Anderson, landsliðsmaður í knattspyrnu, gaf ekki kost á sér í leikina þrjá sem fram undan eru hjá U21 árs landsliðinu, en liðið er í hörðum slag um sæti á EM á næsta ári. Fótbolti.net greinir frá.
Mikael var í síðasta A-landsliðshópi, en hann var ekki í hópnum að þessu sinni. Er hann enn löglegur með U21 árs landsliðinu en ákvað að gefa ekki kost á sér.
Miðjumaðurinn kaus heldur að vera áfram hjá félagsliði sínu Midtjylland í Danmörku og spila í bikarleik gegn Køge á miðvikudaginn kemur.
U21 árs liðið mætir Ítalíu á heimavelli og Írlandi og Armeníu á útivelli í þremur síðustu leikjum sínum í undankeppni EM. Sigur í öllum þremur leikjunum tryggir sæti Íslands á lokamótinu.