Nú er komið að því

Freyr Alexandersson á milli Birkis Bjarnasonar og Sverris Inga Ingasonar.
Freyr Alexandersson á milli Birkis Bjarnasonar og Sverris Inga Ingasonar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Nú er komið að því að spila leik þar sem örlögin eru í okkar höndum og allt er undir, þar viljum við vera,“ sagði Freyr Alexandersson, aðstoðarþjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, á blaðamannafundi fyrir komandi landsliðsverkefni Íslands.

Undirbúningur landsliðsins hefst í Augsburg í Þýskalandi en það spilar svo þrjá útileiki, gegn Ungverjalandi, Danmörku og Englandi, á sjö dögum. Ástæða þess að liðið undirbýr sig í Augsburg, áður en það ferðast til Búdapest daginn fyrir leik, er meðal annars sú að bannað er að æfa á Ísland vegna sóttvarna.

Íslensku landsliðsmennirnir þurfa ekki að fara í sóttkví við komuna til Þýskalands. Samkvæmt reglum þar í landi geta leikmennirnir komið inn í landið með því að framvísa nýju veiruprófi, sé það innan við 48 klukkustunda gamalt.

Þá kom Freyr inn á að þó leikurinn gegn Ungverjum sé að sjálfsögðu sá mikilvægasti, þá skipta leikirnir í Þjóðadeildinni ekki síður máli. Ísland er tveimur sætum frá því að fara upp um styrkleikaflokk hjá FIFA og takist það, m.a. með góðum úrslitum gegn Dönum og Englendingum, gæti Ísland staðið betur að vígi fyrir undankeppni heimsmeistaramótsins 2022.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert