Viðræður um nýjan þjóðarleikvang

Laugardalsvöllur.
Laugardalsvöllur. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ríkisstjórn Íslands hefur samþykkt að hefja viðræður við Reykjavíkurborg um byggingu nýs þjóðarleikvangs í knattspyrnu. 

Munu viðræðurnar byggja á valkostagreiningu breska ráðgjafafyrirtækisins AFL sem telur að 15.000 manna leikvangur án þaks sé hagkvæmasti kosturinn, ef eingöngu sé horft til beinna fjárhagslegra þátta. 

Byggja þarf upp keppnisaðstöðu sem stenst alþjóðlegar kröfur en síðustu árin hefur Laugardalsvöllurinn þurft á undanþágum að utan að halda í alþjóðlegum keppnum, rétt eins og Laugardalshöllin. 

Fréttatilkynningin:

Ríkisstjórnin hefur samþykkt að hefja viðræður við Reykjavíkurborg um næstu skref vegna byggingar nýs þjóðarleikvangs í knattspyrnu, að tillögu mennta- og menningarmálaráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra. Með slíkum viðræðum er  mikilvægt skref stigið í þeirri vegferð að byggja keppnisaðstöðu sem stenst alþjóðlegar kröfur, en undanfarin ár hefur Laugardalsvöllur þurft undanþágur og sérstakan viðbúnað vegna keppnisleikja í alþjóðlegum mótum.

Viðræður við Reykjavíkurborg munu byggja á valkostagreiningu breska ráðgjafafyrirtækisins AFL, sem varð hlutskarpast í útboði sem efnt var til á evrópska efnahagssvæðinu snemma árs. Í greiningunni er kostnaðar- og tekjumat eftirtalinna valkosta, auk viðskiptaáætlunar og mats á efnahagslegum þáttum:

  1. Að núverandi völlur verði að mestu leyti óbreyttur, en ráðist verði í lágmarksendurbætur og -lagfæringar.
  2. Að Laugardalsvöllur verði endurbættur svo hann uppfylli kröfur og staðla Knattspyrnusambands Evrópu (EUFA) og Alþjóða knattspyrnusambandsins (FIFA).
  3. Að byggður verði nýr 15.000 manna leikvangur, með opnanlegu þaki eða án þaks.
  4. Að byggður verði fjölnotaleikvangur með 17.500 sætum, með opnanlegu þaki eða án þaks.

Völlur með sætum fyrir 15.000 áhorfendum talinn hagkvæmasti kosturinn

AFL telur að 15.000 manna leikvangur án þaks sé hagkvæmasti kosturinn, ef eingöngu sé horft til beinna fjárhagslegra þátta. Hins vegar myndi slíkur leikvangur með opnanlegu þaki skila bestu heildarniðurstöðunni m.t.t. vinnsluvirðis, efnahagslegra áhrifa, nýtingar og fleiri þátta. Þá telur AFL að ofangreindir valkostir A og B séu ekki fýsileg langtímalausn.

Valkostagreiningin var unnin að undirlagi Þjóðarleikvangs ehf., félags sem KSÍ, Reykjavíkurborg og ríkið stofnuðu til að halda utan um verkefnið.

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra:

„Laugardalsvöllur var reistur af stórhug fyrir 63 árum og hefur reynst vel – fært þjóðinni ógleymanleg augnablik og skilað íslensku knattspyrnufólki á stærstu úrslitakeppnir í heimi. Hann er hins vegar barn síns tíma og langt frá því að uppfylla viðmið, m.a. um öryggi og aðstöðu vallargesta, aðgengi fatlaðs fólk, aðstöðu leikmanna, dómara og fjölmiðla, hitakerfi o.s.frv. Það er því löngu tímabært að ráðast í byggingu nýs þjóðarleikvangs og ég er vongóð um að hann muni rísa á næstu 5 árum.“

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra:

„Ég fagna því að málið sé komið á hreyfingu og þetta er rétti tíminn til að hefja undirbúning slíkra framkvæmda. Nú þarf að meta hvernig haga skuli útboði á helstu verkþáttum, t.d. verkefnisstjórn, hönnun og byggingaverktöku, en jafnframt þurfa málsaðilar að semja um mikilvæga þætti eins og eignarhald, fjármögnum. Ég er er fullur bjartsýni um að lending náist í því og að nýr þjóðarleikvangur rísi sem allra fyrst.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert