Sara Björk Gunnarsdóttir landsliðsfyrirliði í knattspyrnu var í kvöld útnefnd íþróttamaður ársins 2020 af Samtökum íþróttafréttamanna sem lýstu kjöri sínu í 65. skipti.
Sara átti magnað ár en hún varð þýskur meistari og bikarmeistari árið 2020 með Wolfsburg í Þýskalandi og vann báða titlana fjórða árið í röð. Hún gekk til liðs við Evrópumeistara Lyon í byrjun júlí og varð strax franskur bikarmeistari með liðinu.
Í lok ágúst varð hún síðan Evrópumeistari fyrst íslenskra kvenna þegar Lyon vann Wolfsburg í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu, 3:1, og Sara skoraði þriðja mark franska liðsins í leiknum. Hún var tilnefnd sem ein af þremur bestu miðjuleikmönnum Meistaradeildarinnar, tilnefnd í úrvalslið ársins hjá UEFA og raðað í 24. sæti af bestu knattspyrnukonum heims af enska blaðinu The Guardian.
Þá var Sara sem fyrr fyrirliði íslenska landsliðsins en það tryggði sér sæti í lokakeppni Evrópumótsins með því að fá 19 stig úr átta leikjum í undankeppninni og þurfti ekki að fara í umspil.
Sara, sem er þrítug að aldri, sló jafnframt leikjamet landsliðsins í október þegar hún fór fram úr Katrínu Jónsdóttur og hefur Sara nú leikið 136 A-landsleiki fyrir Íslands hönd.