Ísland fékk skell í Armeníu

David Yurchenko kýlir boltann úr teignum eftir íslenskt horn í …
David Yurchenko kýlir boltann úr teignum eftir íslenskt horn í Armeníu í kvöld. AFP

Ísland tapaði 2:0 gegn Armeníu í öðrum leik sínum í J-riðli í undankeppni HM karla í knattspyrnu í Jerevan í dag. Liðið er því án stiga eftir fyrstu tvo leiki sína.

Íslenska liðið fór töluvert betur af stað í dag, heldur en gegn Þjóðverjum í fyrsta leiknum á fimmtudaginn. Fyrstu 20 mínúturnar voru hreinlega góðar hjá íslenska liðinu sem gerði sex breytingar frá tapinu í Duisburg. Liðið hélt boltanum vel og var ógnandi í föstum leikatriðum. Strax á 11. mínútu átti Ari Freyr Skúlason þrumuskot rétt framhjá markinu í kjölfar hornspyrnu.

Þegar líða fór á fyrri hálfleikinn náðu heimamenn þó að færa sig upp á skaftið. Solomon Udo og Norberto Briasco áttu báðir tilraunir fyrir utan teig sem Hannes Þór Halldórsson varði og þá átti Ari Freyr í vandræðu með hægri kantmanninn Tigran Barseghjan sem stakk sér gjarnan inn að marki til að láta vaða. Armenar áttu fimm marktilraunir í fyrri hálfleik, þar af þrjár á markið en báðar tilraunir íslenska liðsins fóru framhjá, fyrst skotið hjá Ara og svo skalli Jón Daða Böðvarssonar rétt fyrir leikhlé.

Snemma í síðari hálfleik kom svo skellurinn. Barseghjan, sem var búinn að ógna af hægri kantinum, fékk boltann frá Artak Grigorjan, rak hann upp hægri kantinn og stakk sér svo inn að marki. Þar hörfaði Ari Freyr frá honum og Barseghjan þakkaði fyrir sig, sneri boltann í fjærstöngina og inn.

Íslenska liðið brást við og fékk sitt allra besta færi leiksins á 68. mínútu. Jón Daði lyfti þá boltanum yfir varnarmann og kom sér í færi einn gegn David Jurchenko í markinu sem varði gríðarlega vel frá Selfyssingnum. Íslenska liðið pressaði stíft eftir þetta og gaf þá auðvitað færi á sér úr skyndisóknum.

Albert Guðmundsson fékk gult spjald á 68. mínútu fyrir leikaraskap er hann henti sér niður inn í vítateig án þess að varnarmaður kom við hann. Þýðir þetta að hann verður í leikbanni á miðvikudaginn.

Það kom svo að því að Aron Einar tapaði knettinum í einni sókn, heimamenn geystust af stað upp völlinn og Khoren Bajramjan bætti við öðru marki á 74. mínútu með skoti í fjærhornið, aftur eftir ómerkilegan varnarleik en Birkir Már Sævarsson virtist hörfa frá honum.

Aftur hélt íslenska liðið að reyna kreista eitthvað fram en án árangurs, Aron Einar átti tilraun frá vítateigslínunni á 85. mínútu sem Jurchenko blakaði yfir markið og var þetta, ásamt skoti Jóns Daða, ein af tveimur tilraunum Íslands sem fór á markið.

Lokatölur 2:0 fyrir Armeníu sem er þá með fullt hús stiga eftir fyrstu tvo leiki sína. Ísland er aftur á móti á botninum án stiga og mætir Liechtenstein á miðvikudaginn.

Armenar fögnuðu mörkum sínum vel og innilega.
Armenar fögnuðu mörkum sínum vel og innilega. AFP
Armenía 2:0 Ísland opna loka
90. mín. Varazdat Harojan (Armenía) á skot framhjá Fyrirliðinn lætur vaða eina 35 metra frá marki og reyndar þrumar knettinum hátt yfir markið.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert