Ekki alls kostar sáttur við dvöl í sóttvarnahúsi

Jörundur Áki Sveinsson, aðstoðarþjálfari íslenska U21 árs landsliðsins í knattspyrnu, …
Jörundur Áki Sveinsson, aðstoðarþjálfari íslenska U21 árs landsliðsins í knattspyrnu, þarf að verja páskunum í sóttvarnahúsi. Eggert Jóhannesson

Jörundur Áki Sveinsson, aðstoðarþjálfari U21 árs landsliðs karla í knattspyrnu, er ekki beint sáttur við að þurfa að verja páskunum í sóttvarnahúsi.

Eftir að hafa dvalið undanfarna viku í Ungverjalandi, þar sem U21 árs liðið tók þátt í lokakeppni EM í Györ-borg, kom íslenski hópurinn heim til Íslands í gær.

Við heimkomuna var hópurinn skikkaður til dvalar í sóttvarnahúsi. Það er vegna þess að frá og með gærdeginum tóku gildi nýjar sóttvarnareglur, þar sem Íslendingar jafnt sem ferðamenn þurfa að dvelja í sóttvarnahúsi í fimm daga komi þeir frá löndum sem teljast til áhættusvæða. Ungverjaland er eitt af þeim löndum sem telst til áhættusvæða.

Gildir þar einu hversu margar skimanir einstaklingar hafa farið í. Á twitter-aðgangi sínum skrifaði Jörundur Áki enda: „Eftir 8 skimanir og einangrun í Ungverjalandi þá bíður okkar dvöl í sóttvarnahúsi fram á þriðjudag í næstu viku ... alveg eðlilegt bara.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka