Rúmenskir fjölmiðlar fjalla um málefni KSÍ

Guðni Bergsson sagði af sér sem formaður KSÍ í gær.
Guðni Bergsson sagði af sér sem formaður KSÍ í gær. mbl.is/Hari

Stærsta íþróttablað Rúmeníu, Gazeta Sporturilor, fjallar í dag á ítarlegan hátt um Knattspyrnusamband Íslands og þá þöggunarmenningu og gerendameðvirkni sem þar hefur grasserað undanfarin ár.

Greint er frá því að Guðni Bergsson hafi sagt að sambandið hefði ekki fengið kvörtun inn á sitt borð vegna kynferðisofbeldis, sem reyndist ekki rétt, og hefði borgað fyrir það með því að segja af sér sem formaður KSÍ í gær.

Einnig er sérstaklega minnst á Kolbein Sigþórsson og hann sagður hafa verið rekinn úr landsliðinu og muni væntanlega aldrei spila fyrir það aftur. Þá er þess getið að Rúnar Már Sigurjónsson hafi sjálfur dregið sig úr hópnum.

Stjórn KSÍ ákvað að taka Kolbein úr landsliðshópnum vegna ofbeldis sem hann beitti tvær konur á B5-skemmtistaðnum í miðbæ Reykjavíkur haustið 2017, en ekkert hefur komið fram um mögulega framtíð hans með landsliðinu.

Var Kolbeinn kærður af báðum konum en bæði málin voru leyst með sátt og greiðslu miskabóta.

Auk þess er í umfjöllun Gazeta Sporturilor minnst á hópnauðgun tveggja landsliðsmanna á konu frá árinu 2010 og gert því skóna að Kolbeinn eigi þar hlut að máli.

Samkvæmt heimildum mbl.is er hann þó ekki annar þeirra, heldur er um að ræða leikmann sem er ein af stjörnum landsliðsins í dag og annan sem hefur lítið komið við sögu hjá A-landsliðinu um langt árabil. Gazeta Sporturilor segir þann síðari vera hættan knattspyrnuiðkun en það er ekki svo.

Umfjöllun Gazeta Sporturilor má lesa í heild sinni hér, þó rétt sé að benda á að hún er á rúmensku.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert