„Ég er bara orðlaus, þetta er geggjað“

Úr landsleiknum í kvöld.
Úr landsleiknum í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Andri Lucas Guðjohnsen kom inn á sem varamaður og skoraði sitt fyrsta mark fyrir íslenska A-landsliðið í knattspyrnu karla þegar hann jafnaði metin í 2:2 í leik gegn Norður-Makedóníu í undankeppni HM í dag.

„Það var æðislegt að vera partur af þessu. Auðvitað var þetta ekki okkar besti leikur. Þetta var „sloppy“ fyrri hálfleikur en hægt og rólega náðum við að koma okkur inn í leikinn í seinni hálfleik.

Við sem komum inn á vorum klárir í slaginn. Við náðum að minnka muninn rétt áður en ég kem inn á og svo geri ég bara mitt besta til þess að hjálpa liðinu og næ að skora. Þetta var æðisleg upplifun,“ sagði Andri Lucas í samtali við RÚV eftir leik.

Beðinn um að fara nánar í saumana á sínu fyrsta landsliðsmarki, sem kom í hans öðrum landsleik, sagði Andri Lucas: „Það var sérstaklega gaman að gera það hérna heima á Laugardalsvellinum. Þetta er æðisleg tilfinning, að heyra alla í stúkunni fagna þessu með mér. Ég er bara orðlaus, þetta er geggjað.“

Hann var þá spurður út í kossinn sem faðir hans, Eiður Smári Guðjohnsen aðstoðarlandsliðsþjálfari, veitti honum áður en hann kom inn á í sínum fyrsta landsleik gegn Rúmeníu á fimmtudagskvöld

„Þetta var bara svona augnablik föður og sonar því auðvitað er þetta pabbi minn sem er aðstoðarþjálfari. Við reynum að halda þessu eins „professional“ og við getum en ég hugsa að hann hafi bara verið stoltur yfir því að sjá son sinn koma inn á og spila sinn fyrsta landsleik.“

Hvað fór í gegnum huga Andra Lucas þegar hann fékk kossinn á kinnina?

„Þetta var alveg búst en ef ég á að vera alveg hreinskilinn þá man ég ekki einu sinni eftir þessu. Ég var svo mikið að einbeita mér að leiknum og að sjá hvað var að gerast en það var gaman að sjá þetta á myndbandi eftir á,“ sagði hann.

Spurður um hvort hann fari að gera tilkall til byrjunarliðssætis eftir góða innkomu sína í dag sagði Andri Lucas:

„Það fer bara eftir Arnari [Þór Viðarssyni landsliðsþjálfar]. Hann stillir bara upp í sitt besta lið, stillir upp þeim ellefu leikmönnum sem honum finnst vera mest klárir í leikinn. En auðvitað stefnir maður að því og vonandi kemur að því.“

Andri Lucas Guðjohnsen (nr. 22) fagnar jöfnunarmarki sínu ásamt liðsfélögum.
Andri Lucas Guðjohnsen (nr. 22) fagnar jöfnunarmarki sínu ásamt liðsfélögum. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert