Frábær lokakafli Íslands bjargaði stigi

Ísland og Norður-Makedónía skildu jöfn, 2:2, á Laugardalsvelli þar sem liðin mættust í undankeppni HM karla í knattspyrnu. Gestirnir komust í tveggja marka forystu en frábær lokasprettur íslenska liðsins bjargaði stigi.

Arnar Þór Viðarsson gerði þrjár breytingar á liðinu sem mátti þola 2:0-tap gegn Rúmeníu í Laugardalnum á fimmtudaginn. Kári Árnason kom inn í vörnina er Hjörtur Hermannsson settist á bekkinn. Þá kom Ísak Bergmann Jóhannesson inn á miðjuna fyrir Guðlaug Victor Pálsson og Mikael Anderson var á kantinum fyrir Jóhann Berg Guðmundsson sem ekki var í leikmannahópnum.

Breytingar virtustu hafa ágætis áhrif í upphafi leiks. Mikael var sprækur á hægri kantinum og bestu sóknarlotur íslenska liðsins í upphafi leiks fóru í gegnum hann. Áfram var Viðar Örn Kjartansson fremsti maður, þrátt fyrir að hafa ekki einu sinni verið valinn í upprunalega landsliðshópinn, og var hann oft á tíðum einmanna í sínu hlutverki.

Íslenska liðið fagnar jöfnunarmarki Andra Lucas Guðjohnsen.
Íslenska liðið fagnar jöfnunarmarki Andra Lucas Guðjohnsen. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Engu að síður var byrjun Íslands ágæt, þrátt fyrir bestu tilraunir Ivan Kruzliak dómara frá Slóvakíu til að hægja á leiknum við hvert tækifæri en aukaspyrnurnar voru óþarflega margar í kvöld. Eftir þokkalega byrjun var því ansi svekkjandi þegar gestirnir tóku forystuna á 11. mínútu með marki sem hefði verið hægt að koma í veg fyrir. Ezgjan Alioski tók þá hornspyrnu frá vinstri sem miðvörðurinn Darko Velkovski skoraði úr með skalla. Viðar Örn virtist aðeins gleyma sér í vörninni og beið eftir boltanum á meðan Velkovski tók af skarið. Þá skallaði hann boltann nokkurn veginn beint á Rúnar Alex Rúnarsson í markinu en hann náði þó ekki að verja, var í boltanum en inn fyrir línuna lak hann.

Gestirnir efldust við markið og voru sterkari aðili leiksins næstu 25 mínútur eða svo áður en heimamenn vöknuðu aðeins til lífs skömmu fyrir hlé. Áfram var þó skortur á eiginlegum marktækifærum og átti íslenska liðið aðeins eitt skot í fyrri hálfleik, Albert Guðmundsson skaut framhjá á fyrstu mínútu.

Vont gat svo versnað því á 54. mínútu varð staðan 2:0. Guðmundur Þórarinsson átti þá slæma sendingu þvert yfir völlinn og Ezgjan Alioski, vinstri bakvörður Makedóníu, vann boltann á miðjunni. Hann lét sér það þó ekki nægja, heldur rak hann knöttinn fram völlinn eina 30-40 metra og skoraði svo með hnitmiðuðu skoti í fjærhornið frá vítateigslínunni, án þess að nokkur Íslendingur reyndi mótleik.

Íslendingar voru þó ekki búnir að syngja sitt síðasta og héldu jafnvel að þeir væru búnir að minnka muninn á 65. mínútu þegar Kári Árnason skallaði boltann í netið í kjölfar aukaspyrnu Alberts Guðmundssonar. Eftir athugun myndbandsdómara kom í ljós að Kári var rangstæður. Staðan varð hins vegar 2:1 á 78. mínútu. Albert átti þá fast skot úr aukaspyrnu, rúma 20 metra frá marki, og Stole Dimitrievski í marki gestanna gat ekki gert annað en að slá boltann út í markteig. Þar mætti fyrstur Brynjar Ingi Bjarnason og skoraði af stuttu færi, hans annað landsliðsmark í fimmta landsleiknum.

Brynjar Ingi Bjarnason minnkar muninn.
Brynjar Ingi Bjarnason minnkar muninn. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hurð skall nærri hælum örfáum mínútum síðar er Aleksandar Trajkovski skaut í stöng en á 84. mínútu jafnaði Ísland metin. Aftur var það í gegnum Albert, sem nú var vinstra megin í teignum, hann lagði boltann inn í markteig þar sem Andri Lucas Guðjohnsen, nýkominn inn sem varamaður, sneri baki í markið. Framherjinn ungi sneri sér og skaut, náði að skófla boltanum í markið. Hans annar landsleikur og fyrsta markið.

Úr urðu gríðarlega spennandi loka mínútur þar sem bæði lið reyndu að kreista fram sigurmark og næst komust gestirnir frá Makedóníu. Aleksandar Trajkovski skallaði boltann í átt að fjærhorninu og Rúnar Alex var sigraður í markinu en Brynjar Ingi, besti maður Íslands í kvöld, bjargaði ævintýralega á marklínu. Fleiri urðu mörkin ekki og lokatölur því 2:2.

Úrslitin breyta stöðu liðanna í J-riðli í undankeppninni ekki mikið. Norður-Makedónía er enn í þriðja sæti, nú með átta stig. Ísland er með fjögur stig í fimmta og næst neðsta sætinu.

Mörk breyta leikjum

Það er gömul saga og ný að mörk breyta fótboltaleikjum. Þá hefur auðvitað sjálfstraust ansi mikið vægi í lífi afreksíþróttafólks. Síðustu vikur og mánuði hefur róðurinn verið þungur hjá íslenska karlalandsliðinu, bæði innan sem utan vallar. Leikurinn í dag var lengst af í ágætis takti við það. Íslenska liðinu virtist vanta sjálfstraustið til að takast á við verkefnið og gestirnir fóru sjaldan úr öðrum gír í fyrri hálfleik og framan af þeim síðari.

Þegar Brynjar Ingi minnkaði svo loks muninn, rúmum tíu mínútum fyrir leikslok, var eins og þungu fargi væri létt af bæði leikmönnum og stuðningsmönnum og endaspretturinn í takt við það. Albert var frábær síðustu mínúturnar og Brynjar Ingi átti stór augnablik, skoraði og og bjargaði á línu, en var þess á milli stundum óstöðugur. Hann á framtíðina fyrir sér. Albert verður þó fjarri góðu gamni á miðvikudaginn er þýska landsliðið kemur í heimsókn. Hann fékk gult spjald í dag og tekur því út leikbann í næsta leik.

Það verður svo að hrósa varamönnunum sérstaklega, þeir breyttu leiknum. Ari Freyr Skúlason kom inn með miklum krafti, sömuleiðis þeir Arnór Sigurðsson og Jón Dagur Þorsteinsson. Andri Lucas skoraði svo auðvitað laglegt mark.

Áfram eru erfiðir tímar framundan í íslenskri knattspyrnu, innan sem utan vallar. Næst mætum við ógnarsterku liði Þjóðverja á fimmtudaginn og vonandi verða síðustu mínúturnar í dag veganestið inn í þann leik, frekar en fyrstu 75 mínúturnar.

Kári Árnason kemur boltanum í netið en markið var dæmt …
Kári Árnason kemur boltanum í netið en markið var dæmt af vegna rangstöðu. mbl.is/Kristinn Magnússon
Ísland 2:2 Norður-Makedónía opna loka
90. mín. Norður-Makedónía fær hornspyrnu Gestirnir fá hornspyrnu er við byrjum síðustu mínútu venjulegs leiktíma.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert