Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu á litla sem enga möguleika á að komast í lokakeppni HM 2022 sem fram fer í Katar á næsta ári í spá tölfræðisíðunnar Gracenote.
Ísland hefur ekki farið vel af stað í undankeppni HM en liðið er með 4 stig í fimmta og næst neðsta sæti J-riðils undankeppninnar eftir fimm umferðir.
Þýskaland er í efsta sæti riðilsins með 12 stig en Armenía kemur þar á eftir með 10 sig. Rúmenía með 9 stig og Norður-Makedónía með 8 stig koma þar á eftir.
Samkvæmt spá Gracenote þá á íslenska liðið 1% möguleika á því að komast í umspil um laust sæti á HM en liðið sem hafnar í öðru sæti riðilsins fer í umspil.
Alls eru tuttugu lið sem eiga ekki möguleika á því að komast á HM eins og stakir standa en ásamt Íslandi eru Lúxemborg, Kósovó, Kasaktastan, Búlgaría, Hvíta-Rússland, Írland, Kýpur, Malta, Eistland, Lettland, Færeyjar, Aserbaídsjan, Litháen, Moldóva, Georgía, Gíbraltar, San Marínó, Andorra og Liechtenstein einnig á listanum.