KSÍ, Knattspyrnusamband Íslands, sendi frá sér yfirlýsingu rétt í þessu þar sem kemur fram að sambandið vilji í samvinnu við ÍSÍ að stofnuð verði nefnd til að gera úttekt á viðbrögðum og málsmeðferð KSÍ vegna kynferðisofbeldismála sem tengst hafa leikmönnum í landsliðum Íslands.
Guðni Bergsson sagði af sér sem formaður KSÍ eftir að sambandið var sakað um að þagga niður ofbeldismál tengdum leikmönnum karlalandsliðsins. Í kjölfarið sagði stjórn KSÍ af sér og Klara Bjartmaz, framkvæmdastjóri, fór í leyfi. Hún hefur hinsvegar snúið aftur til starfa.
Yfirlýsing KSÍ:
Stjórn Knattspyrnusambands Íslands (KSÍ) hefur farið þess á leit við Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands (ÍSÍ) að sett verði á stofn nefnd til að gera úttekt á viðbrögðum og málsmeðferð KSÍ vegna kynferðisofbeldismála sem tengst hafa leikmönnum í landsliðum Íslands. Nefndinni er ætlað að fara yfir þá atburðarás sem leiddi til afsagnar formanns og stjórnar KSÍ og bregðast við ásökunum um þöggun. Þá á nefndin að taka sérstaklega til athugunar hvort einhverjar þær aðstæður séu uppi innan KSÍ sem hamla þátttöku kvenna í starfi þess. Þetta er gert í tengslum við fullyrðingar sem fram hafa komið í opinberri umræðu um að KSÍ sé karllægt og fráhrindandi fyrir konur. Í því sambandi verður skoðað hvort skipulag KSÍ eða aðrir þættir í starfseminni séu hamlandi fyrir þátttöku kvenna í starfinu.
Knattspyrnusambandið ítrekar afsökunarbeiðni sína til þolenda og heitir því að vinna ótrautt að því að bæta menningu og starfsanda innan hreyfingarinnar. KSÍ vill laga starfshætti sína að kröfum tímans um viðbrögð við kynferðisofbeldi. Í þessu skyni hefur verið leitað til sérfræðinga og ráðgjafa til að aðstoða hreyfinguna við að vinna að úrbótum til framtíðar og bæta samskipti og upplýsingaflæði til samfélagsins. Stjórn mun leitast eftir að upplýsa um framgang mála fram að aukaþingi.
KSÍ fordæmir ofbeldi af öllu tagi. Knattspyrnusambandið er að bæta afgreiðslu ofbeldismála og tryggja að þau fari í réttan farveg hjá samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs eða lögreglu. Mikilvægt er að skapa aðstæður til að gera raunverulegar úrbætur í takti við þá ráðgjöf sem KSÍ hefur fengið og að upplýst sé jafnóðum um þau skref sem stigin eru.
Helstu atriði:
Eðli málsins samkvæmt vilja fjölmiðlar og aðrir spyrja margra spurninga. Starfsmenn og fráfarandi stjórn KSÍ munu leitast við að svara þeim eftir bestu getu fram að aukaþingi. Þó er ljóst að einhver mál skýrast ekki fyrr en ný stjórn tekur til starfa.