Arnar Þór Viðarsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, segir að ákvörðun sem hann tók um að velja Aron Einar Gunnarsson fyrirliða ekki í landsliðshóp sinn hafi verið tekin með það fyrir augum að vernda liðið, hópinn og Aron Einar sjálfan.
Á teams-fjarfundi með blaðamönnum í dag útskýrði Arnar Þór ákvörðun sína nánar og greindi frá því að hann hefði fundað með Vöndu Sigurgeirsdóttur, nýkjörnum formanni KSÍ, í síðustu viku áður en hún tók við embættinu.
„Málið var það að ég flaug til Íslands á þriðjudaginn. Aron Einar tilkynnti okkur á þriðjudag að hann væri klár í verkefnið. Við þurftum að fá upplýsingar til þess að taka ákvörðun um það hvort við myndum velja Aron eða ekki.
Ég byrjaði á að eiga fund með fráfarandi stjórn og talaði svo við Vöndu og útskýrði í rauninni hvaða möguleika við hefðum akkúrat á þeirri stundu. Það vita náttúrlega allir núna hvernig staðan var. Á fimmtudag var mjög erfitt að útskýra stöðuna.
Ég held að það skilji það allir núna að það er ekki í okkar verkahring að nafngreina fólk eða vinna í þessum málum alveg eins og það er ekki í ykkar verkahring að vera að nafngreina fólk í svona málum,“ sagði hann og beindi þar orðum sínum til blaðamanna.
Aron Einar hefur sjálfur sagt í yfirlýsingu að orðrómur um að hann sé annar tveggja knattspyrnumanna sem hafi nauðgað íslenskri konu í Kaupmannahöfn árið 2010 sé eflaust ástæðan fyrir því að hann hafi ekki verið valinn að þessu sinni.
Rannsókn lögreglunnar á málinu var tekin upp að nýju að beiðni konunnar. Aron Einar sagði í yfirlýsingunni að hann væri saklaus og að hann myndi fús fara í skýrslutöku hjá lögreglunni vegna málsins.
„Ég lagði spilin á borðið fyrir Vöndu og fór yfir hvernig ég sæi hlutina. Þú þarft ekkert að vinna fyrir NASA til þess að sjá að þetta var eina ákvörðunin sem við gátum tekið til að vernda liðið okkar, hópinn og Aron Einar,“ bætti Arnar Þór við.
Hann sagðist með ákvörðuninni hafa viljað koma í veg fyrir að sú staða sem kom upp í síðasta landsleikjahléi, þar sem fráfarandi stjórn KSÍ ákvað að taka Kolbein Sigþórsson úr hópnum, kæmi upp aftur og því hefði hann tekið það alfarið í sínar hendur að velja ekki Aron Einar í hópinn.
„Vanda var bara mjög heiðarleg, hún var ekki orðin kjörinn formaður þarna. Stjórnin sem var kosin á laugardag var ekki tekin til starfa. Hún hlustaði í rauninni bara á það sem ég hafði að segja.
Það sem gerðist í síðasta glugga var að Kolbeinn var tekinn út úr hópnum, okkur var bannað að velja hann. Það er nokkuð sem þú vilt ekki sem þjálfari. Til þess að geta tekið ákvarðanir er oft auðvelt að setja sig í spor annarra.
Við settum okkur bara í spor nýrrar stjórnar og Vöndu og tókum ákvörðun út frá því sem við heyrðum frá fráfarandi stjórn og þeim pælingum sem við vorum með sjálfir. Það eru stundum krefjandi ákvarðanir sem við þurfum að taka og við gerum það eftir bestu getu,“ útskýrði Arnar Þór.