Ísland og Armenía gerðu 1:1 jafntefli í undankeppni heimsmeistaramóts karla í knattspyrnu á Laugardalsvellinum í kvöld.
Armenía var 1:0 yfir að loknum fyrri hálfleik eftir að Kamo Hovhannisjan skoraði á 35. mínútu. Ísak Bergmann Jóhannesson jafnaði fyrir Ísland á 77. mínútu og skoraði í fyrsta skipti fyrir A-landsliðið.
Sjöunda umferðin af tíu í riðlinum var leikin öll á sama tíma og þar mættust einnig Þýskaland - Rúmenía og Liechtenstein - Norður-Makedónía. Þýskaland vann 2:1 eftir að hafa lent 0:1 undir og N-Makedónía vann 4:0.
Þýskaland með 18 stig, Armenía 12, Norður-Makedónía 12, Rúmenía 10, Ísland 5 og Liechtenstein eitt stig.
Sigurlið riðilsins tryggir sér sæti á HM í Katar 2022 en liðið sem endar í öðru sæti kemst í umspil.
Íslendingar voru mun sprækari fyrsta hálftímann eða svo. Armenar eiga möguleika á því að komast á HM í Katar. Þeir eru ekki vanir slíkri stöðu og spennustigið var eflaust hátt hjá þeim. Íslenska liðinu tókst ekki að nýta ágætar sóknir í stöðunni 0:0 en þá var liðið töluvert betra liðið á vellinum.
Á 11. mínútu lék Albert fram hjá Jurchenko markverði hægra megin í teignum en skaut þvert fyrir opið markið úr færi sem var orðið nokkuð þröngt.
Mínútu síðar átti Ísland þunga sókn þar sem varnarmaður varði skot frá Þóri Jóhanni áður en Birkir Bjarnason skaut yfir.
Jón Dagur átti tvær fyrirgjafir frá vinstri sem gáfu færi. Viðar Örn skaut fram hjá og Guðlaugur Victor skallaði yfir.
Miðað við hvernig leikurinn hafði þróast stefndi flest í að Ísland myndi skora fyrsta markið. Svo fór þó ekki. Armenar náðu að hrista af sér slenið og skoruðu á 35. mínutu. Hovhannisjan fékk fyrirgjöf frá hægri. Var á fjærstönginni og náði að stýra boltanum í hægra hornið með vinstra fæti. Íslensku leikmennirnir gáfu Armenum aðeins of mikinn tíma í þessari sókn en Hovhannisjan hafði einnig heppnina með sér því skot hans fór nánast á milli fóta Birkis Más og í netið.
Íslendingar ógnuðu lítið fram að hléi og Armenar voru sprækari á fyrstu mínútunum eftir hlé. Ísak kom inn á sem varamaður í upphafi síðari hálfleiks og átti skot á 54. mínútu eftir undirbúning Þóris sem Jurchenko varði.
Þegar frekar dauft var yfir leiknum kom jöfnunarmarkið á 77. mínútu. Birkir Már komst upp að endamörkum hægra megin. Lenti í smá klafsi en hafði betur. Renndi boltanum á Ísak sem var rétt fyrir utan markteiginn. Ungi maðurinn var yfirvegaður. Stoppaði boltann og lagði hann með vinstri fæti í vinstra hornið. Snyrtilega gert.
Verulega lifnaði yfir áhorfendum við þetta en þeir voru fáir í kvöld. Um tvö þúsund miðar seldust í forsölu en slíkur fjöldi virðist ekki mikill á Laugardalsvelli.
Tveir leikmenn léku fyrsta A-landsleikinn í kvöld. Elías Rafn varði markið og í uppbótartíma kom Mikael Egill inn á. Birkir Bjarna og Birkir Már léku landsleik númer 102 en Birkir Bjarna var fyrirliði.
Kynslóðaskiptin halda áfram en meðalaldurinn verður enn lægri á mánudaginn þegar Ísland mætir Liechtenstein því bakverðirnir Birkir Már og Ari Freyr fengu báðir gult spjald og eru komnir í leikbann. Ísak Bergmann verður reyndar einnig í leikbanni eftir að hafa fengið gult spjald í uppbótartímanum.