„Mér finnst þetta ósanngjörn gagnrýni sem Knattspyrnusambandið hefur legið undir,“ sagði Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður KSÍ, í Dagmálum, frétta- og menningarlífsþætti Morgunblaðsins.
Vanda, sem er 56 ára gömul, tók við formannsembætti KSÍ í október á aukaþingi sambandsins eftir að Guðni Bergsson sagði óvænt af sér í lok ágúst.
Knattspyrnusambandið hefur verið harðlega gagnrýnt undanfarnar vikur fyrir þöggun og meðvirkni með meintum gerendum innan sambandsins.
„Þetta eru stór orð og það þarf að hafa það í huga að þetta er risastór hreyfing með fólki af frábæru fólki sem hefur unnið endalaust fyrir fótboltann á Íslandi,“ sagði Vanda.
„Auðvitað má gagnrýna hlutina og það er ýmislegt sem hefði og má betur fara en það þarf líka að vanda orðavalið,“ sagði Vanda.
Viðtalið við Vöndu í heild sinni má nálgast með því að smella hér.