Ekki séns að Ísland myndi skemma partíið

Heimamenn fagna sigrinum og sæti í umspili í leikslok.
Heimamenn fagna sigrinum og sæti í umspili í leikslok. Ljósmynd/Robert Spasovski

Gianni Alioski skoraði fyrsta mark Norður-Makedóníu í 3:1-heimasigri á Íslandi í undankeppni HM í fótbolta í kvöld. Með sigrinum tryggði Norður-Makedónía sér sæti í umspili um sæti á lokamótinu. 

Alioski skoraði einnig í fyrri leik liðanna á Laugardalsvelli þar sem hann lagði auk þess upp mark. Í tveimur leikjum gegn Íslandi er bakvörðurinn því með tvö mörk og eina stoðsendingu. 

„Ég er vanur því að spila í kalda veðrinu þar sem ég spilaði á Englandi í nokkur ár,“ svaraði Alioski spurningu blaðamanns mbl.is léttur. Alioski lék með Leeds áður en hann færði sig yfir til Sádi-Arabíu fyrir þessa leiktíð. 

„Ég skoraði og lagði upp á Íslandi en það var erfiður leikur þar sem þeir náðu að jafna í 2:2. Íslendingarnir hjálpuðu okkur hins vegar með því að ná jafntefli á móti Rúmeníu og við sýndum í dag að við erum betri en þeir.“

Hefði Norður-Makedóníu mistekist að vinna Ísland hefði Rúmenía náð umspilssætinu. „Íslenska liðið er með unga menn sem vildu skemma partíið okkar í kvöld, en það var ekki séns að þeir væru að fara að skemma fögnuðinn okkar. Við áttum þennan sigur skilið,“ sagði Alioski. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert