Stjórn Knattspyrnusambands Íslands, KSÍ, ákvað að nýta sér uppsagnarákvæði í samningi Eiðs Smára Guðjohnsen vegna vandamála hans utan vallar.
Þetta herma heimildir mbl.is.
Eiður Smári hefur látið af störfum sem aðstoðarþjálfari íslenska karlalandsliðsins en þetta kom fram í fréttatilkynningu sem Knattspyrnusambandið sendi frá sér í kvöld.
Mbl.is greindi frá því í júní á þessu ári að starf Eiðs Smára hjá KSÍ héngi á bláþræði eftir að myndband náðist af honum í annarlegu ástandi í miðbæ Reykjavíkur.
Guðni Bergsson, þáverandi formaður KSÍ, setti Eið þá afarkosti; að fara í áfengismeðferð eða missa starfið.
Eiður var sendur í leyfi en mætti ferskur til starfa í verkefni karlalandsliðsins um haustið og sagði við fjölmiðla að hann hefði tekið á sínum málum.
Vandamál hans utan vallar hafa verið í umræðunni í þó nokkurn tíma og er það ástæða þess að stjórn KSÍ ákvað að endurnýja ekki samning sinn við landsliðsfyrirliðann fyrrverandi.
Arnar Þór Viðarsson, þjálfari karlalandsliðsins, er einnig með uppsagnarákvæði í sínum samningi en það bendir allt til þess að hann verði áfram með liðið, þrátt fyrir brotthvarf Eiðs Smára.