„Fyrstu þrír á blaði hjá mér eru Íslendingar,“ sagði Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfari karla í fótbolta, á blaðamannafundi í dag aðspurður hvernig leitin að nýjum aðstoðarþjálfara gengi.
„Mér finnst það vera best fyrir íslenska landsliðið, KSÍ og íslenskan fótbolta að vera með íslenskan aðstoðarþjálfara og helst einhvern sem er búsettur á Íslandi,“ bætti Arnar við.
Hann segir ekki koma til greina að þjálfarar gegni öðrum störfum á meðan þeir eru aðstoðarþjálfarar landsliðsins.
„Aðstoðarþjálfarastarfið hjá KSÍ er fullt starf. Ég held að það sé eðlilegt að það sé þannig og því verður ekki breytt núna. Það væri ómögulegt að vera í öðru starfi á meðan þú ert aðstoðarþjálfari landsliðsins,“ bætti Arnar Þór við en hann er í Antalya í Tyrklandi þar sem Ísland mætir Úganda á miðvikudaginn og Suður-Kóreu á laugardaginn.