Fyrsta landsliðsmark Sveins dugði skammt

Sveinn Aron Guðjohnsen skoraði mark Íslands.
Sveinn Aron Guðjohnsen skoraði mark Íslands. Ljósmynd/KSÍ

Íslenska karlalandsliðið í fótbolta fékk 1:5-skell gegn Suður-Kóreu er liðin mættust í vináttuleik í Aksu í Tyrklandi í dag. Sveinn Aron Guðjohnsen skoraði mark Íslands í seinni hálfleik.

Suður-Kórea var töluvert betra liðið í fyrri hálfleik og Cho Gue-sung skoraði fyrsta mark leiksins á 15. mínútu þegar hann slapp í gegn eftir sendingu frá Kang Sang-woo og skoraði af öryggi.

Tíu mínútum síðar fékk Suður-Kórea víti þegar Ari Leifsson tók markaskorarann niður í teignum. Kwon Chang-hoon fór á vítapunktinn en Hákon Rafn Valdimarsson varði glæsilega. Aðeins tveimur mínútum síðar skoraði Chang-hoon hinsvegar þegar hann slapp í gegn eftir langa sendingu fram og skoraði af öryggi.

Paik Seung-ho skoraði fallegasta mark fyrri hálfleiksins á 29. mínútu þegar hann negldi boltanum upp í samskeytin af 30 metra færi eða svo. Eftir markið var Suður-Kórea mikið með boltann, án þess þó að skapa sér mikið. Íslenska liðið komst lítið áleiðis í hálfleiknum og var staðan í leikhléi 3:0.

Íslenska liðið byrjaði seinni hálfleikinn töluvert betur og Sveinn Aron Guðjohnsen minnkaði muninn með sínu fyrsta landsliðsmarki á 54. mínútu er hann kláraði í teignum eftir sendingu frá Davíð Kristjáni Ólafssyni.

Ísland var þó ekki líklegt til að bæta við öðru marki og Suður-Kórea komst aftur þremur mörkum yfir á 73. mínútu þegar Kim Jin-kyu skoraði af stuttu færi í annarri tilraun eftir að hafa fyrst skotið í Damir Muminovic. Eom Ji-sung bætti svo við fimmta markinu með skalla af stuttu færi á 86. mínútu og þar við sat.

Arnar Þór Viðarsson landsliðsþjálfari gerði átta breytingar á byrjunarliðinu frá jafnteflinu við Úganda, 1:1, á miðvikudaginn. Aðeins Arnór Ingvi Traustason, sem var áfram fyrirliði, Ari Leifsson og Viktor Karl Einarsson voru áfram í byrjunarliðinu og hófu því báða leikina í ferðinni. Damir lék sinn fyrsta landsleik í dag, 31 árs gamall.

Suður-Kórea 5:1 Ísland opna loka
90. mín. Suður-Kórea fær hornspyrnu Ji-sung við það að komast í boltann í teignum en Höskuldur verst mjög vel.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert