Jafnt gegn Finnum á Spáni

Birkir Bjarnason fyrirliði Íslands og markaskorari í leik gegn Finnum …
Birkir Bjarnason fyrirliði Íslands og markaskorari í leik gegn Finnum í Tampere árið 2017. mbl.is/Skúli B. Sigurðsson

Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu gerði 1:1-jafntefli við það finnska í vináttulandsleik í Murcia á Spáni í dag. Ísland var sterkari aðilinn í leiknum og vantaði aðeins herslumuninn til þess að tryggja sér sigur.

Leikurinn fór afar rólega af stað en Finnar tóku forystuna á 12. mínútu með fyrsta skoti leiksins og eina skoti Finna í fyrri hálfleik.

Ilmari Niskanen fann þá Teemu Pukki í grennd við vítateiginn, hann hafði nóg pláss og tók boltann með sér, fór afskaplega auðveldlega framhjá Daníel Leó Grétarssyni og renndi boltanum svo snyrtilega framhjá Rúnari Alex Rúnarssyni í marki Íslands.

Strax í næstu sókn fékk Ísland hornspyrnu sem Þórir Jóhann Helgason tók en skalli Daníels Leós fór yfir markið.

Í kjölfarið gerðist lítið sem ekkert þar til að íslenska liðið fór að setja aukna pressu á Finna þegar rétt rúmlega hálftími var liðinn af leiknum.

Ísland fékk í kjölfarið nokkrar hornspyrnur og Jón Daði Böðvarsson átti svo hættulegt skot í D-boganum en Miro Tenho í vörn Finna gerði vel í að komast fyrir það.

Tveimur mínútum síðar, á 38. mínútu, komu Finnar þó engum vörnum við þegar Jón Daði tók á rás rétt við vítateiginn hægra megin, lagði boltann út á Birki sem hitti boltann óaðfinnanlega úr D-boganum með viðstöðulausu innanfótarskoti á lofti sem söng í bláhorninu, óverjandi fyrir Jesse Joronen í marki Finnlands.

Þetta var fimmtánda landsliðsmark Birkis í hans 106. landsleik.

Skömmu síðar, á 42. mínútu, komst Jón Daði í gott skotfæri eftir laglegan samleik við Jón Dag Þorsteinsson, náði hörkuskoti en Joronen gerði vel í að verja aftur fyrir.

Staðan var því 1:1 í hálfleik.

Íslenska liðið hóf síðari hálfleikinn af viðlíka krafti og það endaði fyrri hálfleikinn á.

Á 47. mínútu komst Jón Daði upp hægri kantinn af miklu harðfylgi, brotið var á honum en hann stóð upp og gaf fyrir á Jón Dag sem lagði boltann út á Arnór Sigurðsson sem var í mjög góðu skotfæri í teignum en lagði boltann í hliðarnetið utanvert.

Tveimur mínútum síðar átti Þórir Jóhann hörkuskot fyrir utan teig sem Joronen þurfti að hafa sig allan við að verja til hliðar.

Á 54. mínútu mátti minnstu muna að Jón Daði kæmi Íslandi yfir en hann náði þá ekki að teygja sig nægilega langt í flotta fyrirgjöf Jóns Dags með jörðinni og táarskotið rúllaði því til hliðar.

Á 65. mínútu átti Þórir Jóhann annað þrumuskot fyrir utan vítateig en Joronen varði það naumlega aftur fyrir.

Þegar tæpur stundarfjórðungur var eftir komust Finnar nálægt því að taka forystuna að nýju.

Varamaðurinn Mikael Soisalo átti þá fyrirgjöf frá hægri sem annar varamaður, Joel Pohjanpalo, reyndi að skalla en hitti ekki boltann, hann var hins vegar á leið í netið en Brynjar Ingi Bjarnason náði einhvern veginn að bjarga á línu og koma boltanum yfir markið og í hornspyrnu.

Eftir þetta fjaraði leikurinn nokkurn veginn út og liðin sættust því að lokum á 1:1-jafntefli.

Næsti leikur Íslands er gegn heimamönnum á Spáni í La Coruna næstkomandi þriðjudagskvöld. Þar verður einnig um vináttulandsleik að ræða.

Finnland 1:1 Ísland opna loka
90. mín. Miro Tenho (Finnland) fer af velli
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert