Ísland fékk stóran skell á Spáni

Ísland átti litla möguleika er liðið mætti Spáni í vináttuleik karla í fótbolta í La Coruna á Spáni í kvöld. Urðu lokatölur 5:0 og hefðu Spánverjar getað skorað fleiri mörk á meðan Ísland skapaði sér lítið sem ekkert.

Spænska liðið var með boltann rúmlega 80 prósent af fyrri hálfleik á meðan íslenska liðið varðist aftarlega og freistaði þess að sækja hratt. Það gáfust hinsvegar fá tækifæri til þess. Íslenska vörnin stóð þó vel framan af í fyrri hálfleik og reyndi ekki mikið á Rúnar Alex Rúnarsson í markinu.

Það breyttist hinsvegar á 37. mínútu þegar Álvaro Morata slapp einn í gegn, lék á Alfons Sampsted, og skoraði af öryggi. Aðeins tveimur mínútum síðar fór Dani Olmo niður innan teigs eftir baráttu við Birki Bjarnason og vítaspyrna dæmd. Morata fór á punktinn og skoraði af öryggi og var staðan í hálfleik 2:0.

Spánverjar bættu við þriðja markinu í fyrstu sókn sinni í seinni hálfleik. Jordi Alba slapp þá upp vinstra megin og sendi fyrir á Yéremi Pino sem skallaði í netið af stuttu færi.

Varamaðurinn Pablo Sarabia skoraði fjórða markið á 61. mínútu, örfáum mínútum eftir að hann kom inn á sem varamaður. Hann skallaði þá boltann í netið af stuttu færi eftir fyrirgjöf frá Marcos Alonso sem hafði einnig komið inn á sem varamaður á sama tíma.

Þeir voru svo aftur á ferðinni ellefu mínútum síðar þegar Alonso slapp aftur upp vinstri kantinn og átti sendingu á Sarabia sem skoraði með fætinum í þetta skiptið og kom Spánverjum í 5:0 og þar við sat.

Spánn 5:0 Ísland opna loka
90. mín. Leik lokið Erfitt kvöld fyrir íslenska liðið. Miklir yfirburðir hjá Spánverjum.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert