Bjarki Steinn Bjarkason, kantmaður ítalska knattspyrnuliðsins Venezia, hefur verið kallaður inn í A-landsliðshóp Íslands fyrir leikina fjóra 2. til 13. júní.
Hann hafði áður verið valinn í hóp 21-árs landsliðsins sem spilar þrjá leiki í undankeppni Evrópumótsins á sama tíma.
Bjarki kemur í staðinn fyrir Hólmbert Aron Friðjónsson sem var í upphaflega A-hópnum sem tilkynntur var í síðustu viku en dró sig út úr hópnum. Ómar Smárason, fjölmiðlafulltrúi KSÍ, staðfesti þetta við mbl.is en kvaðst ekki þekkja ástæðurnar fyrir fjarveru Hólmberts.
Bjarki Steinn lék einn leik með Venezia í ítölsku A-deildinni í vetur en var síðan lánaður til C-deildarliðsins Catanzaro þar sem hann spilaði út tímabilið. Bjarki, sem er 22 ára gamall og lék áður með ÍA og Aftureldingu, á að baki 10 leiki með 21-árs landsliði Íslands.
Ísland mætir Ísrael á útivelli í fyrsta leiknum í Þjóðadeild UEFA á fimmtudagskvöldið kemur.
Ekki hefur enn sem komið er verið bætt við leikmann í hóp 21-árs landsliðsins í stað Bjarka en liðið mætir Liechtenstein á Víkingsvellinum á föstudaginn kemur.